Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna innleidd í Kópavogi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða innleidd í Kópavogi.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða innleidd í Kópavogi.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum þriðjudaginn 11.september að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í yfirstefnu Kópavogsbæjar. Kópavogur verður fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Frá árinu 2016 hefur bæjarstjórn Kópavogs unnið að heildarstefnumótun bæjarins. Í nýsamþykktri stefnu bæjarstjórnar Kópavogs er fjallað um hlutverk, framtíðarsýn og gildi bæjarins. Yfirmarkmið stefnunnar eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru 17 og undirmarkmið 169. Í Kópavogi verður undirmarkmiðum forgangsraðað og hafa alls 34 undirmarkmið verið valin til þess að mynda yfirmarkmið í starfsemi bæjarins.

Við forgangsröðun var litið til forgangsmarkmiða sem birtast í stöðuskýrslu ríkisstjórnar Íslands frá síðastliðnum júní. Í henni koma fram 65 undirmarkmið sem Ísland mun leggja áherslu á. Af þessum undirmarkmiðum eiga 24 við um alþjóðasamstarf, aðallega með þróunarsamstarfi, og falla því ekki að starfsemi sveitarfélaga.

Þá var litið til þess hvernig Heimssamband sveitarfélaga (UCLG) hefur flokkað undirmarkmið og dregið fram þau markmið sem falla að starfi sveitarfélaga. Alls er þar um 85 undirmarkmið að ræða og eru þau borin saman við forgangsmarkmið Íslands. Að lokum er litið til þeirra markmiða sem falla að verkefnum sem bæjarstjórn hefur þegar skuldbundið sig til að vinna að, svo sem innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, verkefninu Okkar Kópavogur og opnu bókhaldi.

Í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs munu stofnanir bæjarins hafa yfirmarkmiðin að leiðarljósi við gerð stefnumarkandi áætlana. Þannig verður unnið með heildstæðum hætti að því hjá Kópavogsbæ að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í Kópavog - Stefna bæjarstjórnar Kópavogs