Heimsmarkmiðin í Smáraskóla

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setur þemadaga í Smáraskóla 11. apríl 2019.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setur þemadaga í Smáraskóla 11. apríl 2019.

Smáraskóli hóf þemadaga í dag, fimmtudaginn 11. apríl, sem fjalla um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti þemadagana og ávarpaði nemendur og starfsfólk með hvatningarorðum varðandi þemaverkefnin. Katrín talaði um mikilvægi þess að fullorðnir skili jörðinni af sér í góðu ásigkomulagi til næstu kynslóðar og að allir sýni ábyrgð í neyslu og endurvinnslu á plasti. Hún nefndi einnig mikilvægi þess að öll börn í heiminum fengju að ganga í skóla.

Vinna nemenda næstu tvo dagana verður fjölbreytt og mun veita innsýn inn í þá málaflokka sem Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna benda á, meðal annars loftslagsmál og mengun, vellíðan, heilbrigði og fátækt.

Nemendur fara í vettvangsferðir, taka viðtöl og búa til hlaðvarpsþætti, halda fata- og skósölu, styrkja góðgerðarmálefni, fá gesti og fyrirlesara sem meðal fjalla um geðheilbrigði og vellíðan og svo prófa nokkrir nemendur að synda í plastmenguðu vatni en Kópavogslaug veitti góðfúslegt afnot af lauginni.

Þess má geta að Smáraskóli er fjórði skólinn í Kópavogi sem fjallar um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á skólaárinu en Salaskóli, Hörðuvallaskóli og Álfhólsskóli hafa allir unnið með Heimsmarkmiðin í vetur.

Unnið er að innleiðingu Heimsmarkmiðanna í Kópavogi en bæjarstjórn Kópavogs samþykkti síðastliðið haust að gera þau að yfirstefnu bæjarins.