Hitaveitulokun vegna bilunar

Lokun
Lokun

Vegna bilunar í Nesjavallavirkjun er engin framleiðsla á heitu vatni á Nesjavöllum sem stendur. Því er heildarframleiðslugeta á heitu vatni fyrir hitaveitu höfuðborgarsvæðisins skert um 30%. Við bilunina kom högg á dreifikerfi hitaveitunnar með þeim afleiðingum að leki kom að annarri Reykjaæðinni en þær flytja heitt vatn frá Mosfellsbæ til borgarinnar. Hitaveitugeymar á Reynisvatnsheiði hafa því sem næst tæmst í morgun.

Af þessum sökum þarf að loka fyrir heitt vatn í Lindum, Smára og vesturbæ Kópavogs og í Garðabæ (utan Urriðaholts og Holtsbúðar) frá kl. 14:00-18:00 í dag (sjá kort).

Í morgun hefur verið gripið til fjölmargra aðgerða til að mæta þessari stöðu. Búið er að færa fjölda hverfa á höfuðborgarsvæðinu, sem fengu vatn frá virkjunum, yfir á vatn úr borholum á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Hellisheiðarvirkjun er keyrð á fullum afköstum.

Unnið er markvisst að því að koma framleiðslu heits vatns í virkjuninni í gang. Viðgerðum í virkjuninni, sem áætlað er að taki nokkra daga, verður hagað þannig að sem minnst truflun verði á framleiðslu heits vatns.

Veðurspá gerir ráð fyrir kuldatíð næstu daga og má því búast við að notkun á heitu vatni verði mikil. Fólk er hvatt til að fara einstaklega sparlega með heita vatnið og hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur til að tapa ekki varma úr húsum.