Hlúð að andlegri heilsu

Hressingarhælið stendur við Kópavogsgerði
Hressingarhælið stendur við Kópavogsgerði

Í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdagsins, 10. október, kynnir Kópavogsbær að hressingarhælið í Kópavogi verður nýtt í þágu lýðheilsu og geðræktar. Stefnt er að því að þar verði haldin námskeið og erindi á sviði geðræktar til að efla andlega heilsu íbúa en í fyrstu verður áhersla lögð á að vinna með börnum og ungmennum.

Í tillögu stýrihóps um lýðheilsu kemur fram að brýnt sé að leggja rækt við andlega heilsu barna og ungmenna en nýleg skýrsla Unicef sýnir til dæmis að styrkja þurfi félagsfæri íslenskra ungmenna. Þá er andleg vanlíðan ein helsta ástæða skertra lífsgæða í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

„Að nýta gamla hressingarhælið sem miðstöð fræðslu og færniþjálfunar á sviði geðræktar er gott og mikilvægt verkefni. Geðrækt og andleg líðan hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri þó hefur hún sjaldnast verið meiri en nú á tímum heimsfaraldurs. Börnin okkar og ungmenni hafa kallað eftir meiri sálfræðilegum stuðningi og þetta nýsköpunar og þróunarverkefni er eitt af því sem við ætlum að gera til að svara því kalli„ segir Anna Elísabet Ólafsdóttir, sérfræðingur lýðheilsumála hjá Kópavogsbæ.

Húsið, sem stendur við Kópavogsgerði, hefur frá upphafi tengst heilbrigðismálum, fyrst sem hressingarhæli fyrir útskrifaða berklasjúklinga, síðar meðal annars sem holdsveikraspítali og húsnæði Þroskaþjálfaskólans. Húsið var reist að frumkvæði kvenfélagsins Hringsins 1925 og tekið í notkun árið 1926. Arkitekt hússins var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins.

Unnið hefur verið að endurgerð hússins á vegum Kópavogsbæjar undanfarin ár. Lagfæringum á ytra byrði er lokið að mestu og þá hefur nánasta umhverfi verið lagfært, hellulagt og tyrft en staðsetning hússins á fallegum grónum stað við Kópavoginn býður upp á að sinna verkefnum utandyra, svo sem núvitundaræfingum og hugræktargöngum.