Hughrif og Óp/Op í Gerðarsafni

Verk eftir Jón B. K. Ransu sem sýnd verða á sýningu hans Óp/Op sem hefst í Gerðarsafni laugardaginn…
Verk eftir Jón B. K. Ransu sem sýnd verða á sýningu hans Óp/Op sem hefst í Gerðarsafni laugardaginn 15. nóvember.

Sýningarnar Hughrif eftir Hólmfríði Árnadóttur og Óp/Op eftir Jón B.K. Ransu verða opnaðar í Listasafni Kópavogs-Gerðarsafni, laugardaginn 15. nóvember klukkan 15. Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs, opnar sýningarnar formlega. Sýningarnar standa yfir til 4. janúar.

Hólmfríður Árnadóttir sýnir annars vegar pappírsverk frá fyrri hluta ferils síns, unnin með blandaðri eigin tækni og öll með vatnsuppleysanlegum vönduðum ljósekta litum. Hins vegar nýrri textílverk, ýmist handofin úr íslenskri ull eða silki, með einskeftu eða vaðmáli. Verk Hólmfríðar eru einföld og hrein en án allrar upphafningar eða alvarleika. Leikurinn liggur öllu heldur í skapandi afstöðu hennar til hins hversdagslega umhverfis. 
 
Hólmfríður lauk kennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskólanum og vann að menntamálum allan sinn feril. Hún fékkst ávallt við eigin sköpun samhliða kennslustörfum og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, aðallega utanlands. Hún sótti námskeið og lagði stund á starfsnám hér heima, í Danmörku og Bretlandi þar sem hún var félagi í British Crafts Centre (sem nú heitir Contemporary Applied Arts) og hafði náin tengsl við Royal College of Art. Hún lauk störfum sem prófessor við Kennaraháskóla Íslands og var sæmd fálkaorðu árið 2009 fyrir framlag sitt til listkennslu í íslensku skólakerfi. Í tilefni sýningarinnar er einnig gefin út bók sem dregur saman ágrip af verkum Hólmfríðar Árnadóttur þar sem listunnendur geta áttað sig betur á framlagi hennar til íslenskrar myndlistar. Inngang ritar Jón Proppé.
 
Sýning Jóns B. K. Ransu ber heitið Óp/Op og sýnir verk unnin eftir fyrirmyndum sem tengjast kenningum franska sálfræðingsins Jacques Lacan sem og táknmyndum Edvards Munch og Alfreds Hitchcock. Verkin á sýningunni er einhvers konar framhald verka sem listamaðurinn kallaði Tómt og miðuðust við að beina sjónum að tómum fleti í málverki með notkun skynvillandi lita og formfræði. Að þessu sinni tekur hann fyrir aðdráttarafl hyldýpisins. Í málverki Munchs Ópið og í kvikmynd HitchcocksPsycho er að finna sama hryllinginn og Jacques Lacan lýsti svo vel þegar hann starði ofan í galopinn munn og sá í honum hryllilegt hyldýpi. Hyldýpið býr yfir aðdráttarafli sem er í senn kæfandi nánd og óbærileg fjarvera.
 
Jón B. K. Ransu nam við AKI (Akademie voor Beeldende Kunst) í Hollandi 1990–1995 og var gestanemi við listaháskólann í Dyflinni á Írlandi. Meðfram listsköpun hefur hann skrifað fjölda greina og gagnrýni um myndlist, auk þess að vera sjálfstætt starfandi sýningarstjóri, og kennt málun við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Ransu hefur tekið þátt í fjölda samsýninga heima og erlendis og einkasýningar hans eru orðnar á þriðja tug og hlaut starfsstyrk úr sjóði The Pollock Kra­sner Foundati­on í Banda­ríkj­un­um árið 2007.