Hugmyndafræði Rjúpnahæðar fest á bók

Hrönn og hluti starfsfólka með nýútkomnu bækurnar, f.v.: Svava María Hermannsdóttir, Unnur Kristján…
Hrönn og hluti starfsfólka með nýútkomnu bækurnar, f.v.: Svava María Hermannsdóttir, Unnur Kristjánsdóttir, Hrönn Valentínusdóttir, Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Heiða María Angantýsdóttir og Valgerður Ósk Sigurjónsdóttir

Tvær bækur eru komnar út um starf leikskólans Rjúpnahæðar, Börn og friður: Hvernig túlka börnin frið? og Rjúpnahæðarleiðin: Að rétta upp hönd – leiðarvísir um lýðræði í skóla. Sú síðarnefnda er einnig komin út sem rafbók.

Kveikjan að bókunum, sem Hrönn Valentínusdóttir leikskólastjóri hefur haft veg og vanda af, kom til þegar Rjúpnahæð var boðið að taka þátt í listaverkasýningunni „Hvernig upplifa og túlka börn frið í leik og starfi“.

Þá voru verk barnanna sýnd í tilnefni 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nóvember 2019 sem haldið var upp á með veglegum hætti hjá Kópavogsbæ. Sýningin var afurð þess vinnuferlis sem unnið var eftir lýðræðislegri aðferðarfræði leikskólans. Í kjölfar sýningarinnar var ráðist í að skrifa bækur um efnið til að vekja athygli á og gera fólki kleift að fræðast um stefnu og aðferðafræði leikskólans.

Bókin Rjúpnahæðarleiðin: Að rétta upp hönd - leiðarvísir um lýðræði í skóla fjallar um þá aðferðafræði sem markvisst hefur verið notuð í öllu starfi í leikskólanum Rjúpnahæð. Sú aðferðafræði byggir á sjálfræði með lýðræði að leiðarljósi en Hrönn Valentínusdóttir hefur þróað hana ásamt núverandi og fyrrverandi kennurum og börnum leikskólans í yfir 20 ár.

Aðferðarfræðin hefur verið kennd víða um land sem og erlendis, bæði í leik- og grunnskólum. Kennarar Rjúpnahæðar hafa verið í samstarfi við leik- og grunnskóla í Tékklandi þar sem Rjúpnahæðarleiðin var innleidd með góðum árangri. Í bókinni eru einnig sýnd verkefni sem kennarar Rjúpnahæðar hafa búið til eftir Rjúpnahæðarleiðinni. Þannig geta leikmenn og áhugasamir tekið verkefnin upp og nýtt sér þau óbreytt eða jafnvel búið til sín eigin verkefni út frá forskriftinni sem bókin lýsir.

Höfundar bókarinnar eru stjórnendur og starfsfólk leikskólans Rjúpnahæðar, ásamt heimspekingum og menntunarfræðingum sem starfa eða hafa starfað við Háskóla Íslands. Ritstjóri er Kristján Hreinsson. Rafbókina má nálgast á vef leikskólans.

Í bókinni Börn og friður: Hvernig túlka börnin frið? er, auk lýðæðislegrar aðferðarfræði, lögð áhersla á jafnrétti, jafnræði og mikilvægi þess að allir fái að vera einstakir. Í bókinni, sem ritstýrð er af Kristjáni Hreinssyni er að finna myndir og frásagnir barna sem voru í Rjúpnahæð 2019, framlag frá foreldrum og formála sem ritaður er af Hrönn Valentínusdóttur.

Útgáfa bókarinnar var styrkt af Þróunarsjóði leikskóla Kópavogs.