Húsnæðismál stjórnsýslunnar á dagskrá

Frá íbúafundi í Salnum um húsnæði stjórnsýslu Kópavogs.
Frá íbúafundi í Salnum um húsnæði stjórnsýslu Kópavogs.

Húsnæði stjórnsýslu Kópavogsbæjar er á dagskrá bæjarstjórnarfundar í dag, 9. febrúar. Afgreiðslu málsins var frestað í desember síðastliðnum. Þá samþykkti bæjastjórn að leggja tillögur starfshóps um húsnæði stjórnsýslunnar fyrir rýnihóp íbúa og kynna tillögurnar á íbúafundi. Vinna rýnihóps fór fram í janúar og þriðjudaginn 2. febrúar var haldinn íbúafundur í Salnum í Kópavogi.

Starfshópur um húsnæði stjórnsýslunnar sem tók til starfa síðastliðið haust lagði til að bæjarstjórn tæki afstöðu til tveggja kosta:

Kostur eitt er að ráðist verði í viðhald á Fannborg 2 strax. Jafnframt verði mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar. 

Kostur tvö er að hafnar verði annars vegar viðræður um nýtt húsnæði í Norðurturni við Smáralind og hins vegar viðræður um nýtt húsnæði við Smáratorg

Þessir kostir voru kynntir fyrir hópi Kópavogsbúa, körlum og konum á aldrinum 18 til 74 ára í janúar síðastliðnum. Capacent stýrði þessari vinnu og tóku 24 manns þátt í rýninni.

Þá var efnt til íbúafundar í Salnum. Þar var kynnt greiningarvinna Mannvits og íbúarýni Capacent. Þá gátu gestir beint spurningum til fulltrúa Mannvits, Capacent og bæjarstjóra Kópavogs, Ármanns Kr. Ólafssonar.

Hér má lesa niðurstöður úr íbúarýni Capacent.

Hér má lesa skýrslu Mannvits um húsnæðiskosti stjórnsýslunnar.