Hvatningarverðlaun Kópavogs afhent í fyrsta sinn

Helga Guðrún Gunnarsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson við afhendingu Hvatningarverðlauna Kópavogs.
Helga Guðrún Gunnarsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson við afhendingu Hvatningarverðlauna Kópavogs.

Ræs ehf. hlýtur Hvatningarverðlaun Kópavogs 2021 en þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt.

Ræs ehf., í eigu Helgu Guðrúnar Gunnarsdóttur, býður upp á þjálfun í vatni með áherslu á að þjóna einstaklingum sem eru komnir um og yfir miðjan aldur. Þetta eykur verulega valmöguleika í heilsueflingu og þá ekki síst fyrir eldri aldurshópa.

Námskeið Helgu Guðrúnar í Sundlaug Kópavogs hafa notið mikilla vinsælda. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti Helgu Guðrúnu viðurkenningu og blóm í blíðskaparveðri á sundlaugabarminum í dag við mikinn fögnuð þátttakenda.

Hugmyndin með verðlaununum er að veita viðurkenningu fyrirtæki í Kópavogi sem hefur með starfsemi sinni stuðlað að heilsueflingu Kópavogsbúa.

Hvatningarverðlaun Kópavogs eru mikilvægur liður innleiðingu lýðheilsustefnu bæjarins.

Auglýst var eftir tilnefningum fyrr á þessu ári og var samdóma álit dómnefndar, sem skipuð var stýrihóp lýðheilsumála í Kópavogi, að veita Ræs ehf. verðlaunin.