Hverfaráð taka til starfa

skipulagsmál
skipulagsmál

Fimm hverfaráð hafa nú verið stofnuð í Kópavogi og verður starfi þeirra ýtt úr vör á  næstu dögum og vikum. Fyrsti fundur tveggja hverfaráða fór fram í bæjarstjórnarsal Kópavogs í dag þar sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri fór yfir hlutverk þeirra. Markmiðið er að auka íbúalýðræði í bænum. 

Ráðin eru í Kársneshverfi, Digraneshverfi, Smárahverfi, Fífuhvammshverfi og í Vatnsendahverfi. Hátt í þrjátíu manns sitja í hverju ráði. Valið var í þau með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Þess var gætt að jafnt hlutfall væri á milli kynja og að aldursdreifing væri sem mest.
 
Bæjarstjórn samþykkti stofnun hverfaráðanna fyrr á árinu. Ármann sagði m.a. á kynningarfundinum í dag að ráðin væru mikilvægur vettvangur fyrir bæjarbúa til að hafa meiri áhrif á sitt nánasta umhverfi. Um leið væri þetta tækifæri til að efla samskipti íbúa og bæjaryfirvalda.
 
Miðað er við að ráðin ræði málefni á borð við félagsstarf, skipulagsmál, framkvæmdir og þjónustu. Þar verði rætt hvað betur megi fara og lagðar fram hugmyndir og nýjar leiðir. Ráðin geta lagt fram tillögur fyrir bæjarstjórn eða bæjarráð.
 
Ármann lagði áherslu á það að ráðin væru ekki upp á punt heldur lægi þarna að baki raunverulegur vilji bæjaryfirvalda til þess að eiga góð og uppbyggileg samskipti við íbúa bæjarins.
 
Gert er ráð fyrir því að fundargerðir ráðanna verði birtar hér á vef Kópavogsbæjar en það verður kynnt nánar þegar fundargerðir fara að berast. Miðað er við að hverfaráðin fundi tvisvar til fjórum sinnum á ári.
 
Ráðin eru ekki hluti af nefndarkerfi bæjarins heldur eiga þau að vera sem mest sjálfstæð. Bærinn leggur þó til fundaraðstöðu og þjónustu við fundarboðun.