Íbúar ánægðir í Kópavogi

Íbúar eru ánægðir í Kópavogi.
Íbúar eru ánægðir í Kópavogi.

92% Kópavogsbúa eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á að því er fram kemur í könnun Gallup á þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins. Í könnuninni er spurt um viðhorf til þjónustu sveitarfélaga í margvíslegum málaflokkum.

Í Kópavogi var sérstaklega spurt um þekkingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er verið er að innleiða hann í starf og stefnumótun bæjarins. 96% aðspurðra hafa heyrt um Barnasáttmálann og 83% eru jákvæð í garð innleiðingarinnar, 15% hlutlaus.  

Í einstaka málaflokkum eru mest ánægja íbúa með aðstöðu til íþróttaiðkunar, þar eru 90% ánægðir, 7% hlutlausir. 86% prósent íbúa eru ánægðir með sveitarfélagið út frá reynslu og áliti, 83% íbúa eru ánægðir með gæði umhverfisins, 79% ánægðir með sorphirðu í sveitarfélaginu, 78% með þjónustu grunnskóla og 77% þjónustu leikskóla.

Í nær öllum flokkum sem spurt er um nema einum eru niðurstöður í Kópavogi betri en meðaltal á landsvísu. Í langflestum málaflokkum er meirihluti ánægður með þjónustu sveitarfélagsins og í öllum er ánægja miklu meiri en óánægja.

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 26. nóvember 2019 til 8. janúar 2020 og svöruðu 447 spurningum um Kópavog. 10.845 tóku þátt í könnuninni í heild sinni. Þátttakendur voru eldri en 18 ára, valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup og þjóðskrá. Gagnaöflun stóð yfir þar til tilteknum fjölda var náð í sveitarfélagi fyrir sig.

Þjónusta sveitarfélaga 2019 - Kópavogur