Íbúar ánægðir í Kópavogi

Í Kópavogi sumarið 2023.
Í Kópavogi sumarið 2023.

85% eru ánægð með Kópavog sem stað til að búa á að því er fram kemur í könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga. Í könnuninni er spurt um viðhorf til þjónustu stærstu sveitarfélaga í ýmsum málaflokkum. Kópavogsbær er yfir meðaltali sveitarfélaga í flestum liðum.

Mest er ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bænum en þar trónir bærinn á toppi sveitarfélaga á landinu. Þá er mikil ánægja með gæði umhverfis í nágrenni við heimilið, þjónustu grunnskólanna, þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið og þjónustu í tengslum við sorphirðu en ánægja í þessum þáttum mælist yfir 70%. Þá ríkir almenn ánægja með þjónustu sveitarfélagsins í menningarmálum og málefni eldri borgara.

Spurt er um þjónustu í tólf málaflokkum, í átta þeirra er Kópavogur yfir meðaltali sveitarfélaga á landsvísu, í tveimur mælist þjónustan í meðaltali og í tveimur mælist þjónusta undir meðaltali. Í öllum málaflokkum er ánægja mun meiri en óánægja.

Út frá niðurstöðunum er tækifæri til úrbóta í skipulagsmálum. Þá er munur á til þjónustu leikskóla og barnafjölskyldna samanborið við í fyrra og hefur bæði dregið úr ánægju og hlutfall óánægðra aukist. Breytingar á starfsumhverfi leikskóla sem tóku gildi síðastliðið haust hafa verið mikið í umræðunni og eru líkleg skýring á þessum mun.

„Það er gleðilegt að sjá hversu margir bæjarbúar eru almennt ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins. Íþróttaaðstaðan í bænum er frábær og sú besta meðal allra sveitarfélaga samkvæmt könnuninni. Ánægja með þjónustu grunnskólanna er mikil sem er afar gott enda risastór og mikilvægur málaflokkur. Við réðumst í miklar breytingar í skipulagi og starfsumhverfi leikskólanna síðasta haust gagngert til að leysa djúpstæðan mönnunarvanda á leikskólum sem hafa komið niður á þjónustu við barnafjölskyldur. Opinber umræða um þær breytingar þegar þær voru innleiddar geta eðlilega litað niðurstöður könnunarinnar. Aldrei hafa leikskólar þurft að loka sökum manneklu frá því breytingarnar tóku gildi til samanburðar við 212 daga í fyrra. Flestir leikskólar eru fullmannaðir, gæði leikskólastarfsins hefur aukist og meiri stöðugleiki ríkir í þjónustunni gagnvart börnunum. Við erum bjartsýn á að eftir því sem meiri reynsla kemst á þessarverði viðhorf til leikskólaþjónustunnar jákvæðari. Það verður spennandi að sjá niðurstöður í næstu könnun,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 14. nóvember til 11. janúar 2024. Um er að ræða netkönnun í 19 stærstu sveitarfélögum landsins, þátttakendur eru 18 ára og eldri, notast er við lagskipt tilviljunarúrtak úr viðhorfahópi Gallup. Gagnaöflun stóð yfir þar til tilteknum fjölda var náð í hverju sveitarfélagi, fjöldi svarenda í Kópavogi voru 427.

Niðurstöður könnunar