Íbúar ánægðir með Kópavog

Kópavogur í vetrarbúning.
Kópavogur í vetrarbúning.

90% Kópavogsbúa eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á að því er fram kemur í könnun Gallup á þjónustu 19 stærstu sveitarfélaga landsins. Í könnuninni er spurt um viðhorf til þjónustu sveitarfélagsins í margvíslegum málaflokkum.

Mikil ánægja er með aðstöðu til íþróttariðkunar í sveitarfélaginu, þar eru 88% ánægðir, 9% hlutlausir í afstöðu sinni og 4% óánægðir. Þá eru mjög margir ánægðir með gæði umhverfis í kringum heimili sitt, sorphirðu og þjónustu sveitarfélagsins þegar á heildina er litið bæði út frá reynslu og áliti. Í síðastnefndu spurningunni eru 79% ánægðir, 18% hlutlausir og 2% óánægðir.

Þá var spurt um leiks- og grunnskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, menningarmál, skipulagsmál, þjónustu við eldri borgara og fatlaða.

Í öllum málaflokkum er ánægja Kópavogsbúa jafnmikil eða meiri þegar horft er á meðaltal sveitarfélagsins og borið saman við meðaltöl annarra sveitarfélaga.

Í flestum málaflokkum er meirihluti ánægður með þjónustu sveitarfélagsins og í öllum er ánægja meiri en óánægja.

Þátttakendur voru spurðir hvar helst þyrfti að bæta þjónustu sveitarfélagsins. 25% bentu á samgöngumál, 15% skipulagsmál, 14% á leikskólamál og 13% á á þjónustu við eldri borgara.

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu nóvember til desember og svöruðu 455 spurningum um Kópavog. 11679 tóku þátt í könnunni í heild sinni. Þátttakendur voru eldri en 18 ára, valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup og þjóðskrá. Gagnaöflun stóð yfir þar til tilteknum fjölda var náð í hverju sveitarfélagi fyrir sig.