Íbúar fjalli um bæjarskrifstofur

Skjaldarmerki Kópavogsbæjar
Skjaldarmerki Kópavogsbæjar

Bæjarstjórn samþykkti einróma á bæjarstjórnarfundi 15. desember að tillögur starfshóps um húsnæði bæjarskrifstofa Kópavogs verði lögð fyrir rýnihópa íbúa í byrjun næsta árs. Þá verði tillögur hópsins kynntar á íbúafundi þegar vinnu rýnihópa er lokið. Samþykkt var að bæjarstjórn taki endanlega afstöðu til húsnæðis bæjarskrifstofa Kópavogs eigi síðar en á fundi sínum þann 26. janúar 2016. 

Starfshópur um húsnæði stjórnsýslu Kópavogs tók til starfa síðastliðið haust. Hópurinn, sem var skipaður fimm kjörnum fulltrúum og tveimur embættismönnum, komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu en leggur til að bæjarstjórn Kópavogs velji á milli tveggja valkosta.

Annar kosturinn er að ráðist verði í viðhald á Fannborg 2 strax. Jafnframt verði mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar.

Hins vegar verði viðræður annars vegar um nýtt húsnæði í Norðurturni við Smáralind og hins vegar um nýtt húsnæði við Smáratorg. Jafnframt verði leitað samninga um sölu á fasteignum í Fannborg og mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar.