Íris María nýr kynningar- og markaðsstjóri menningarmála í Kópavogi

Íris María Stefánsdóttir
Íris María Stefánsdóttir

Íris María Stefánsdóttir hefur verið ráðin kynningar- og markaðsstjóri menningarmála í Kópavogi, en hún var valin úr hópi 202 umsækjenda.

Um nýtt starf er að ræða sem ætlað er að auka ásýnd og ímynd menningarmála í Kópavogi en mikil gróska hefur verið í málaflokknum undanfarin misseri.

Íris María er með M.Sc. gráðu í markaðsfræðum frá Viðskiptaháskólanum í Árósum og BA í viðskiptafræði og sálfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur auk þess sótt fjölmörg námskeið sem lúta að stafrænni miðlun og hönnun. Íris María hefur undanfarin fimm ár starfað sem markaðsstjóri Íslenska dansflokksins þar sem hún hefur lagt áherslu á þróun stafrænnar miðlunar og markaðssetningar á netinu. Einnig hefur hún stýrt viðburðum og barnastarfi innan Íslenska dansflokksins og staðið fyrir stofnun vinafélags flokksins. Íris María var um tíma verkefnastjóri Syddjurs Musikskole í Danmörku og vann einnig að kynningarmálum fyrir Dansrækt JSB. 

Íris María er í sambúð með Hrafnkeli Markússyni og eiga þau saman þrjú börn. 

Íris María gengur til liðs við Kópavogsbæ í september og er hún boðin velkomin til starfa.