Íþróttakarl og íþróttakona ársins 2020

Á myndinni eru frá vinstri Jón Finnbogason, formaður íþróttaráðs Kópavogs, Karen Sif Ársælsdóttir, …
Á myndinni eru frá vinstri Jón Finnbogason, formaður íþróttaráðs Kópavogs, Karen Sif Ársælsdóttir, íþróttakona ársins, Arnar Pétursson, íþróttakarl ársins og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

 Arnar Pétursson frjálsíþróttamaður úr Breiðabliki og Karen Sif Ársælsdóttir frjálsíþróttakona úr Breiðabliki voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2020.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum föstudaginn 15. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 200 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Arnar og Karen Sif voru valin úr hópi 42 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Nánar

Arnar Pétursson

Arnar gekk til liðs við uppeldisfélagið sitt Breiðablik í upphafi árs og vann alls 6 Íslandsmeistaratitla á nýliðnu ári bæði í götuhlaupum og  langhlaupum á braut. Hann hefur verið einn besti maraþonhlaupari landsins undanfarin ár og stefnir nú ótrauður á ólympíulágmark í maraþoni fyrir komandi Ólympíuleika í Tokíó.  Arnar er fyrirmynd annarra hlaupara á landsvísu og býr yfir mikilli ástríðu fyrir íþrótt sinni. Auk þess að stunda hlaup sjálfur starfar hann sem hlaupaþjálfari og fyrirlesari. Arnar er í  A landsliði Íslands í frjálsum íþróttum.

Karen Sif Ársælsdóttir

Karen Sif Ársælsdóttir er frjálsíþróttakona ársins 2020 hjá Breiðabliki.  Hún er Íslands- og bikarmeistari kvenna í stangarstökki bæði innan- og utanhúss.  Karen hefur verið einstaklega sigursæl í sinni grein í ár og  hefur ekki tapað keppni í stangarstökki á árinu. Karen Sif var nýlega valin í A- landsliðið í frjálsum íþróttum fyrir árið 2021. Hún stundar íþrótt sína af alúð og er góður félagi og fyrirmynd. Hún hefur sett stefnuna á enn frekari bætingar í stönginni og æfir núna við mjög góðar aðstæður í Danmörku.

Viðurkenningar

Flokkur 17 ára og eldri:

Arnar Pétursson frjálsar íþróttir,  Bjarki Pétursson golf, Ingvar Ómarsson hjólreiðar, Karen Sif Ársælsdóttir frjálsar íþróttir, Matthildur Einarsdóttir blak,  Patrik Viggó Vilbergsson sund, Sofía Sóley Jónasdóttir tennis, Sonný Lára Þráinsdóttir knattspyrna, Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingar, Valgarð Reinhardsson, áhaldafimleikar.

Flokkur 13 til 16 ára:

Aron Logi Hrannarsson dans, Ásta María Armesto Nuevo dans, Björgvin Ingi Ólafsson borðtennis, Dagur Fannar Ólafsson golf, Daníel Wang tennis, Embla Hrönn Halldórsdóttir, körfuknattleikur, Finnur Hugi Finnsson dans,  Guðmundur Karl Karlsson sund, Gunnar Erik Guðmundsson skák, Helena Einarsdóttir blak, Henríetta Ágústsdóttir knattspyrna, Hildur Maja Guðmundsdóttir fimleikar, Hilmar Andri Lárusson fimleikar, Hlynur Freyr Karlsson knattspyrna, Hulda María Sveinbjörnsdóttir hestaíþróttir, Inga Dís Jóhannsdóttir handknattleikur, Júlía Kristín Jóhannesdóttir frjálsar íþróttir, Jökull Jóhannsson blak, Karen Lind Stefánsdóttir golf, Kristín Helga Hákonardóttir sund, Logi Guðmundsson körfuknattleikur, Magnús Arnar Pétursson knattspyrna, Margrét Davíðsdóttir skíði, Marín Aníta Hilmarsdóttir bogfimi, Markús Birgisson frjálsar íþróttir, Nicole Chakmakova tennis, Pétur Már Mortensen Birgisson bogfimi, Rósa Kristín Hafsteinsdóttir dans, Sigurður Baldur Ríkharðsson hestaíþróttir, Tómas Pálmar Tómasson karate, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir knattspyrna, Viktor Már Sindrason handknattleikur.

Flokkur ársins 2020 var kjörinn meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu kvenna en liðið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu á árinu.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir þátttöku í alþjóðlegum meistaramótum og heiðursviðurkenningar íþróttaráðs. 

Þess má geta að íþróttahátíðin var með óhefðbundnu sniði vegna samkomutakmarkana, án gesta og þrískipt.