Íþróttakona og íþróttakarl ársins 2018 kosin af íbúum

Á mynd í viðhengi eru Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Birgir Leifur Hafþórsson íþróttaka…
Á mynd í viðhengi eru Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Birgir Leifur Hafþórsson íþróttakarl ársins í Kópavogi, Nanna Leifsdóttir móðir Fanndísar Friðriksdóttur íþróttakonu ársins sem tók við verðlaunum fyrir hönd dóttur sinnar og Jón Finnbogason formaður íþróttaráðs Kópavogs.

Kópavogsbúar geta haft áhrif og kosið um íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2018. Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilefningum frá íþróttafélögunum. Vægi atkvæðis íbúa er 40% á móti vægi íþróttaráðs. Kjósa má einn karl og eina konu. Val á íþróttakarli og íþróttakonu verður kynnt á íþróttahátíð Kópavogs sem haldin verður í Íþróttamiðstöð GKG 10. janúar 2019 klukkan 18:00.

Íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fá í sinn hlut farandbikar og eignarbikar auk peningaverðlauna frá Kópavogsbæ.

Kosning hefst þann 21.desember og lýkur 6.janúar .

Kosningin er rafræn og fer fram í gegnum íbúagátt Kópavogs

Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2018. 

 

Agla María Albertsdóttir Knattspyrnukona úr  Breiðabliki

Agla María knattspyrnukona ír Breiðablik

Agla María átti frábært tímabil með meistaraflokki kvenna 2018, sem  er eitt það besta í sögu félagsins en liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Agla María var í lykilhlutverki í liðinu, spilaði alla leiki bæði í deild og bikar. Hún skoraði 9 mörk á tímabilinu ásamt því að leggja upp fjölmörg mörk fyrir samherja sína.   Agla María lék 10 A-landsleiki á árinu með íslenska kvennalandsliðinu sem var hársbreidd frá því að komast á Heimsmeistaramótið 2019. Þessi 19 ára gamla Kópavogsmær hefur alls leikið 19 landsleiki fyrir Íslands hönd og munu landsleikjunum að öllum líkindum fjölga hratt á næstu árum.


Agnes Suto Tuuha Fimleikakona úr Gerplu

Agnes Suto Tuuha Fimleikakona úr Gerplu

Agnes er búin að eiga frábæran feril í áhaldafimleikum. Á árinu hefur henni gengið einstaklega vel  og hefur hún aldrei verið í betra formi. Hún leiddi Gerpluliðið til  Bikarmeistaratitils  á árinu jafnframt því að verða Íslandsmeistari í stökki. Hún var valin í öll landsliðsverkefni Fimleikasambandsins á árinu, og fór á Evrópumót, Norðurlandamót, Heimsmeistaramót og Heimsbikarmót. Hún vann til verðlauna á Norðurlandameistaramótinu á einstökum áhöldum þar sem hún vann til silfurverðlauna í stökki á og  hafnaði í  3.sæti í fjölþraut  á Íslandsmeistaramótinu.   Agnes  hefur sýnt bestan árangur Gerplukvenna á árinu 2018 og  er frábær fyrirmynd fyrir allar íslenskar fimleikastúlkur.


Bára Einarsdóttir Skotfimikona úr Skotíþróttafélagi Kópavogs

Bára Einarsdóttir Skotfimikona úr Skotíþróttafélagi Kópavogs

Bára setti sex Íslandsmet á árinu í einstaklings- og liðakeppni. Í einstaklingskeppnum setti Bára met í 50m liggjandi riffli og í þrístöðu með 22 calibera riffli, í liðakeppni í loftskammbyssu, loftriffli, 50  m liggjandi riffli og í þrístöðu með 22 calibera riffli. Hún varð bikarmeistari 2018 í 50m liggjandi riffli og vann allar keppnir á árinu fyrir utan eina.   Hún keppti á Heimsbikarmóti í Munchen í Þýskalandi, fyrst kvenna til að taka þátt í þessari grein erlendis og varð í  28 sæti með 613,7 stig.  Bára keppti á Heimsmeistaramóti í Kóreu og var hún eini Íslendingurinn sem komst í úrslit af skotíþróttafólkinu þar sem hún náði 36 sæti af 90 keppendum.


Ellen Ýr Jónsdóttir Kraftlyftingarkona úr Breiðabliki

Ellen Ýr Jónsdóttir Kraftlyftingarkona úr Breiðabliki

 Ellen Ýr hefur verið sigursæl í kraftlyftingum síðustu 2 ár og er þrefaldur íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum og hefur sett fjölda íslandsmeta. Ellen Ýr keppti á Reykjavíkurleikunum í upphafi árs og varð þar efst íslendinga með silfur.  Í sumar lá leiðina á HM í sem fram fór í Kanada. Hún keppti í -84kg flokki og er þetta hennar fyrsta alþjóðamót á stuttum en mjög öflugum kraftlyftingaferli. Hún lyfti 420kg í samanlögðu sem gaf 12 sætið í feiknasterkum flokki. Ellen Ýr varð íslandsmeistari í réttstöðulyftu í -84kg flokki kvenna og lyfti 180kg. Síðasta mót ársins hjá Ellen var Vestur-Evrópumótið í klassískum kraftlyftingum þar sem Ellen hafnaði í 7.sæti.

 
Svana Katla Þorsteinsdóttir Karatekona úr Breiðabliki

Svana Katla Þorsteinsdóttir Karatekona úr Breiðabliki

 Svana Katla er fastamaður í landsliði Íslands í Kata. Hún tók þátt í verkefnum með landsliðinu á  Norðurlandamóti,  Smáþjóðamóti í San Marínó, Heimsmeistaramóti í Serbíu og nokkrum landsmótum í Evrópu. Hún er ósigruð í einstaklings kata kvenna síðustu 4 árin og  varð Íslandsmeistari í kata kvenna og Íslandsmeistari í hópkata. Hún hefur samtals landað 9 Íslandsmeistaratitlum á keppnisferli sínum. Hún vann til verðlauna í Danmörku, á Englandi og  á finnska bikarmótinu en rétt missti af  verðlaun á tveimur mótum í  Svíþjóð.  Hún hefur verið í landsliði Íslands í hópkata sem hefur unnið til verðlauna á Norðurlandamótum síðustu 7 ár, þar af gull árið 2012.


Birgir Leifur Hafþórsson  Kylfingur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

Birgir Leifur Hafþórsson  Kylfingur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

 Birgir Leifur er enn fremstur íslenskra karlkylfinga og lék á 12 mótum á Evrópumótaröðinni, efsta stigi atvinnumennskunnar í Evrópu. Hann lék á 10 mótum á Áskorendamótaröðinni og náði þar 7. sæti á D+D REAL Czech Challenge  og 48. sæti á Porsche European Open. Hápunktur sumarsins var þegar hann leiddi landsliðið Íslands á EM atvinnukylfinga í sumar til Evrópumeistaratitils í tvenndarkeppni mótsins.  Þar vann  hann ásamt Axeli Bóassyni, Valdísi Þóru Jónsdóttur og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur til gullverðlauna. Birgir Leifur hefur mörg undanfarin ár verið fremsti kylfingur landsins og hefur nú leikið sem atvinnumaður í golfi í rúm 20 ár.

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson  Knattspyrnumaður úr Breiðabliki

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson  Knattspyrnumaður úr Breiðabliki

 Gunnleifur er markvörður og fyrirliði meistaraflokks karla í knattspyrnu og átti frábært tímabil fyrir Blika á árinu 2018. Hann fór fyrir liðinu í Pepsi deildinni þar sem liðið hafnaði í 2.sæti deildarinnar en ekkert lið fékk færri mörk á sig en Breiðablik í deildinni í ár. Gunnleifur átti stóran þátt í því að liðið komst í Bikarúrslitaleik KSÍ. Liðið þurfti að lokum að játa sig sigrað í vítaspyrnukeppni. Þrátt fyrir að vera 43 ára gamall er Gunnleifur enn að bæta sig og var tímabilið í ár eitt það besta hjá honum á ferlinum. Á lokahófi knattspyrnudeildar var Gunnleifur valinn besti leikmaður meistaraflokks karla árið 2018.

 
Ingvar Ómarsson Hjólreiðamaður úr Breiðabliki 

Ingvar Ómarsson  Hjólreiðamaður úr  Breiðabliki

 Ingvar varð Íslandsmeistari í fjórum greinum hjólreiða á árinu, í götuhjólreiðum, maraþonfjallahjólreiðum, ólympískum fjallahjólreiðum og cyclocross.  Hann keppti á 3 heimsbikarmótum á vegum Alþjóða hjólreiðasambandsins auk þess að keppa á heimsmeistaramótum maraþonfjallahjólreiðum þar sem hann lenti í 113. sæti af 167 og ólympískum fjallahjólreiðum. Ingvar keppti einnig í öðrum fjallahjólamótum erlendis og besti árangur þar var 22. sæti í UCI C1 keppni í Kolding og 8. sæti í UCI C3 keppni í Gautaborg.  Af smærri keppnum erlendis er besti árangur 1. Sæti i FitnessDK Marathon og 5. sæti í Skaidi Xtreme. Ingvar er fyrsti íslenski hjólreiðamaðurinn sem gerðist atvinnumaður í greininni.


Jón Þór  Sigurðsson Skotfimimaður úr Skotfíþróttaélagi Kópavogs

Jón Þór  Sigurðsson Skotfimimaður úr	Skotfíþróttaélagi Kópavogs

Jón Þór  varð Bikarmeistari á árinu í 50.m liggjandi riffli og Íslandsmeistari í 300m riffli.  Hann setti Íslandsmet í liðakeppni ásamt Arnfinni og Eiríki í 300 m riffli.  Jón Þór keppti í Munchen í Þýskalandi  í 50m riffli og og náði ágætisárangri með 617,3 stig. Hann keppti jafnframt í 300m riffli í Eistlandi og endaði 19 af 27 keppendum með 576 stig. Hann var meðal keppenda á  Heimsmeistaramótinu í Kóreu í byrjun september í 50m riffli náði þar góðum árangri  með 613,6 stig og   í 300m riffli þar sem hann 45 sæti af 55.  Þá varð hann einnig íslandsmeistari skammbyssu í liðakeppni.

 
Valgarð Reinhardsson  Fimleikamaður úr Gerplu

 Valgarð Reinhardsson Fimleikamaður úr Gerplu

Valgarð varð Íslandsmeistari í fjölþraut á Íslandsmeistaramóti Fimleikasambandsins,  jafnframt því að vinna á svifrá, í hringjum, á tvíslá og á gólfi. Valgarð var einn af burðarstólpunum í liði Gerplu sem sigraði  á Bikarmóti Fimleikasambands Íslands annað árið í röð en það er keppni um hvert sé besta fimleikafélag landsins hverju sinni.    Á Norðurlandameistaramótinu hafnaði hann í  6.sæti í fjölþraut, 2.sæti á tvíslá. Á Evrópumeistaramótinu í Glasgow komst Valgarð fyrstur Íslendinga í úrslit á stökki sem er ótrúlegur árangur hjá þessum unga fimleikamanni en þess má geta að allir bestu stökkvarar heims  mættu. Eftir harða keppni í úrslitum í stökkinu hafnaði hann  8.sæti.