Símamótið er fjölmennasta íþróttamót landsins og þar eiga íþróttafélögin úr Kópavogi alltaf fulltrúa.
Kópavogsbær ætlar í fyrsta sinn að kanna upplifun foreldra og forsjáraðila barna í grunnskólum Kópavogs á gæðum þjálfunar og þjónustu íþróttafélaganna.
Könnunin, sem fengið hefur heitið Íþróttapúlsinn, er lögð fyrir alla foreldra og forsjáraðila barna í grunnskólum í Kópavogi. Gallup framkvæmir könnunina og er sendur tölvupóstur með hlekk á könnun á þau netföng sem tengd eru Mentor námsumsjónarkerfinu.
Íþróttapúlsinn mun því veita sveitarfélaginu og íþróttafélögum yfirsýn yfir upplifun foreldra og forsjáraðila á gæðum þjálfunar og þjónustu íþróttafélaganna en einnig varpa ljósi á samskipti foreldra við íþróttafélög, aðstöðu og fleira.
Þess er vænst að íþróttafélögin í samstarfi við sveitarfélagið geti nýtt niðurstöður til að auka enn frekar gæði og forvarnagildi íþróttastarfs barna og unglinga í íþróttabænum Kópavogi.