Íþróttaveisla í Kópavogi 2020

Efnt verður til þriggja daga íþróttaveislu í Kópavogi í júnílok 2020. UMFÍ skipuleggur íþróttaveisluna í samvinnu við UMSK og íþróttafélög í Kópavogi. Kópavogsbær er fyrst sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að vera gestgjafar íþróttaveislunnar. 

„Íþróttaveislan í Kópavogi er framlag UMFÍ og allra þeirra sem að henni standa til að efla lýðheilsu í landinu. Það er stöðug vinna,‟ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ. Hann skrifaði í dag fyrir hönd UMFÍ undir samstarfssamning við Kópavogsbæ og Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) um Íþróttaveislu UMFÍ sem haldin verður í Kópavogi helgina 26.-28. júní árið 2020.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs skrifaði undir samninginn f yrir hönd bæjarins og Valdimar Leó Friðriksson, formaður UMSK fyrir hönd sambandsins. Breiðablik, HK og Gerpla, aðildarfélög UMSK, eru samstarfsaðilar að veislunni og hjálpa til við að gera hana að frábærum viðburði. 

Við undirskrift samningsins í Kópavogi í dag voru viðstaddir fulltrúar UMFÍ, UMSK, HK, Gerplu, íþróttafulltrúar Kópavogsbæjar og fleiri málsvarar hreyfingarinnar.

Þriggja daga lýðheilsuhátíð

Þeir sem þekkja til móta UMFÍ vita að um heljarinnar fjör er í vændum. Íþróttaveislan verður skemmtileg þriggja daga lýðheilsuhátíð þar sem áhersla verður á íþróttir, skemmtilega hreyfingu og frábæran félagsskap. Í Íþróttaveislunni verður boðið upp á tugi íþróttagreina og fjölda viðburða tengda hreyfingu og má búast við gríðarlegum fjölda fólks njóta þess að keppa sín á milli og á eigin forsendum, prófa allskonar skemmtilega hreyfingu – og uppgötva nýjar greinar.

Haukur sagði þetta verða alvöru veislu og margt í boði, bæði hefðbundnar og óhefðbundnar íþróttagreinar. „Það er líka mjög ánægjulegt að ungt fólk er í forsvari fyrir íþróttafélögin sem standa að Íþróttaveislunni,‟ sagði hann og lagði áherslu á hversu gott væri að hafa bakland í Kópavogi þar sem aðstaðan öll sé frábær fyrir viðburð af þeirri stærðargráðu sem Íþróttaveislan verður.

 Hlakkar til Íþróttaveislunnar

Ármann sagði íbúa Kópavogsbæjar stolta af því að vera gestgjafar þessarar fyrstu Íþróttaveislu UMFÍ á höfuðborgarsvæðinu. „Hér eru öflug íþróttafélög og frábær aðstaða til íþróttaiðkunar sem mun örugglega nýtast afar vel þegar íþróttaveislan fer fram næsta sumar. Ég hlakka til að fylgjast með þessu skemmtilega íþróttamóti,“ sagði hann.