Börnin úr Barnaskóla Kársness eru farin að æfa jólalögin.
Tendrað var á jólastjörnunni á Hálsatogi í Kópavogi í morgun. Börn úr Barnaskóla Kársness voru viðstödd og sungu nokkur jólalög og dönsuðu í kringum stjörnuna. Þóra Marteinsdóttir stýrði söngnum og Ástvaldur Traustason lék á harmonikku.
Þetta er í sjöunda árið sem stjarnan prýðir Hálsatorg og veitir fallega lýsingu á svæðinu, til gleði fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Uppsetning jóla- og skammdegisljósa er nú langt komin hjá Kópavogsbæ, og lokahnykkurinn verður þegar tendrað er á jólatré bæjarins á Aðventuhátíð Kópavogsbæjar.
Tendrun stjörnunnar er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi bæjarins og er upptaktur að Aðventuhátíðinni sem fer fram 29.nóvember.