Vorverkin í garðinum

Frá fræðsludegi í Trjásafninu í Fossvogi 2016.
Frá fræðsludegi í Trjásafninu í Fossvogi 2016.

Fræðslufundur um vorverkin í garðinum verður haldinn í Bókasafni Kópavogs þriðjudaginn 25. apríl kl. 17.00. 

Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu- og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands flytur erindið en að ýmsu þarf að huga í garðinum á vorin.  Klippingar trjá og runna, beðhreinsun, mosieyðing, grassláttur, skipting fjölæringa og gróðursetningar eru allt spennandi verkefni sem hinn almenni garðeigandi þarf að kunna skil á. Verkefni sem krefjast þekkingu og leikni ef vel á að vera.  

 

Fundurinn er haldinn í samvinnu Kópavogsbæjar og Garðyrkjufélags Íslands og er hluti af samstarfssamningi bæjarins og Garðyrkjufélagsins sem nýverið var samþykktur í Bæjarstjórn Kópavogs. Markmið samningsins er að efla vitund og almenna þekkingu á garðrækt og umhverfi, bætta ásýnd í bænum og að efla samstöðu um snyrtilegt umhverfi í Kópavogi.

Samningurinn er tilraunaverkefni til eins árs og í tengslum við hann verða meðal annars haldnir fræðslufundir um ræktun og fræðslugöngur. Fyrir utan fræðslufundinn um vorverkin eru m.a. á döfinni fræðslufundur um matjurtarækt, sem haldinn verður í Bókasafni Kópavogs 2. maí kl. 17.00 og fræðsludagur í Trjásafninu í Meltungu í Fossvogsdal (sem mun fara fram 27. maí.)

Þá mun Garðyrkjufélagið ásamt garðyrkjustjóra Kópavogs koma að verkefni sem snýst um að skrásetja og mæla fágæt og merkileg tré í bænum.

Félagar í Garðyrkjufélagi Íslands erum um 2.500 en félagið er eitt elsta áhugamannafélag í landinu og á sér meira en 130 ára sögu. Um 10% félagsmanna eru búsettir í Kópavogi. „Mikil þekking og reynsla er meðal félagsmanna og starfsfólks Garðyrkjufélagsins. Samvinnan er því mikill fengur fyrir Kópavogsbæ,“ segir Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar.

Viðburðir Kópavogsbæjar og Garðyrkjufélags Íslands

25.4: Vorverkin í garðinum. Fræðslufundur í Bókasafni Kópavogs. 17.00-19.00.

2.5: Matjurtarækt. Fræðslufundur í Bókasafni Kópavogs. 17.00-19.00.

27.5. Trjásafnið í Meltungu í Fossvogsdal. Árlegur fræðsludagur í trjásafninu. Margskonar kynning og fræðsla um ræktun.

7.6: Hermannsgarður í Guðmundarlundi. Árlegur vinnu- og fræðsludagur í samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs.

14.6. Gróðurganga um Kópavogsdalinn. Frá Digraneskirkju að Tjarnargarði.

28.6. Gróðurganga um Fossvogsdalinn. Frá Fagralundi að Skógræktinni.

26. 7. Gróðurganga um trjásafnið Meltungu. Rósir.

19.8. Garðaskoðun í heimilisgarða. Fimm garðar Garðyrkjufélagsmanna verða opnir almenningi. Kynning.

16. 9. Trjásafnið í Meltungu í Fossvogsdal. Kennsla í fræsöfnun og sáningu.

28.9. Gróðurganga um trjásafnið í Meltungu. Haustlitir og ber.