Kópavogsbær setur sér lýðheilsustefnu

Gengið og hjólað við Kópavoginn.
Gengið og hjólað við Kópavoginn.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt lýðheilsustefnu Kópavogsbæjar. Lýðheilsustefnan hefur það að markmiði að Kópavogur „verði þekktur fyrir að vera lifandi og jákvætt samfélag sem stuðlar að vellíðan meðal íbúa á öllum aldursskeiðum með jöfnuð til heilsu að leiðarljósi“.

Í markmiðum lýðheilsustefnunnar eru fjögur áhersluatriði:

  • Geðrækt
  • Hreyfing
  • Næring
  • Umhverfi

Í tengslum við stefnuna hefur verið gerð aðgerðaáætlun þar sem markmiðin eru skýrð betur og leiðirnar til að ná þeim settar fram. Þá verður ráðinn lýðheilsufræðingur til Kópavogsbæjar til þess að fylgja stefnunni eftir og innleiða markmið hennar.

„Lýðheilsustefna Kópavogsbæjar er metnaðarfull og spannar vítt svið. Við vitum að það er mikilvægt að sinna lýðheilsumálum og Kópavogbær ætlar sér að gera það af myndarskap,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs Kópavogs sem sat í starfshóp lýðheilsustefnunnar fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar.

Stefnan var unnin af starfshópi sem skipaður var starfsmönnum af öllum sviðum stjórnsýslu Kópavogsbæjar, tveimur bæjarfulltrúum og fulltrúa Markaðsstofu Kópavogs. Þá voru haldnir tveir íbúafundir í tengslum við gerð stefnunnar þar sem óskað var eftir sjónarmiðum bæjarbúa í lýðheilsumálum.