Barnatónleikar undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur.
Hin árlega menningarhátíð Kópavogs, Kópavogsdagar, fer fram 8. til 11. maí nk. Þetta er í ellefta sinn sem hátíðin er haldin. Listamenn verða með ýmsar uppákomur víða um bæ og menningarstofnanir bæjarins á Borgarholtinu hafa opið upp á gátt og bjóða margs konar afþreyingu í menningu og listum. Öllum listrænum Kópavogsbúum er velkomið að leggja sitt af mörkum.
Tilgangur hátíðarinnar er að njóta afraksturs þess fjölbreytta menningarstarfs sem á sér stað í Kópavogi allan ársins hring.
Eins og fyrri ár verður sérstök síða aðgengileg öllum á netinu þar sem hægt verður að sjá hvað í boði verður.
Opnað verður fyrir skráningar á næstu vikum og verður það tilkynnt hér á vef bæjarins.
Hægt er að senda fyrirspurnir til forstöðumanns Listhúss Kópavogsbæjar, Örnu Schram, í gegnum netfangið: arnaschram(hjá)kopavogur.is.