Líf og fjör í Kópavogslaug
Hin árlega menningarhátíð Kópavogs, Kópavogsdagar, fer fram dagana 8. til 11. maí. Dagskráin verður mjög fjölbreytt með dansi, leiklist, tónleikum og fleiru. Nú sem endranær er ókeypis inn á flesta viðburði á Kópavogsdögum.
Hátíðin sem er nú haldin í ellefta sinn hefur unnið sér sess á meðal bæjarbúa. Markmið Kópavogsdaga er að gefa bæjarbúum færi á að njóta ríkulegs menningarlífs bæjarins á nokkurs konar uppskeruhátíð.
Þeir sem hafa áhuga á þátttöku í hátíðinni er bent á að senda Örnu Schram forstöðumanni Listhúss Kópavogsbæjar póst á netfangið arnaschram@kopavogur.is
Dagskrá hátíðarinnar verður kynnt er nær dregur.