- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fólk með fötlun
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Tvær hátíðir sem fram fóru í Menningarhúsum Kópavogs á síðasta ári og voru unnar í samstarfi við starfsmenn þeirra eru tilnefndar til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Óperudagar í Kópavogi og alþjóðlega listahátíðin Cycle, eru tilnefndar fyrir að vera tónlistarhátíðir ársins en alls fimm hátíðir eru tilnefndar í þessum flokki. Upplýst var um tilnefningarnar í gær og verða úrslit kynnt í byrjun mars.
Óperudagar í Kópavogi fóru fram í fyrsta sinn í júní 2016 og var hátíðin að miklu leyti styrkt með framlagi úr lista- og menningarsjóði bæjarins. Viðburðir fóru fram í Salnum, Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs, Sundlaug Kópavogs, Kópavogskirkju, í húsnæði Leikfélags Kópavogs og víðar. Ókeypis var inn á nær alla viðburði. Markmiðið var að breyta bænum í óperu- og leiksvið í nokkra daga, bjóða upp á vandaða viðburði og færa óperuformið í óhefðbundnum búningi nær almenningi. Um 70 listamenn, söngvarar, hljóðfæraleikarar og aðrir, tóku þátt í hátíðinni. Viðburðir voru rúmlega 30 og náði hátíðin til um 2.000 gesta og þar af um 800 skólabarna í Kópavogi. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar var Guja Sandholt.
Cycle, er alþjóðleg listahátíð sem fram fór í Kópavogi öðru sinn í lok október 2016. Hátíðin er styrkt af lista- og menningarsjóði en að stærstum hluta er hún fjármögnuð með erlendum menningarstyrkjum. Viðburðir og sýningar, tónleikar og gjörningar fóru fram í Gerðarsafni, Salnum, Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs en hátíðin teygði einnig anga sína víða um Hamraborg. Ókeypis var inn á alla viðburði nema einn. Um eitt hundrað íslenskir og erlendir listamenn tóku þátt í hátíðinni og var sýningarstjóri Eva Wilson rithöfundur. Stjórnendur hátíðarinnar voru sem fyrr Guðný Guðmundsdóttir, Fjóla Dögg Sverrisdóttir og Tinna Þorsteinsdóttir.
Í rökstuðningi fyrir tilnefningunni segir um Cycle: „Listahátíðin Cycle er ferskur andblær inn í hátíðarflóru landsins. Cycle er hugsuð sem vettvangur fyrir samtal á milli samtímatónlistar og samtímamyndlistar og er óhætt að segja að snertifletirnir séu í senn margir og spennandi milli þessara listgreina.“
Í rökstuðningi um Óperudaga í Kópavogi segir: „Á Óperudögum í Kópavogi er óperuformið nálgast á frumlegan og nýstárlegan hátt. Efnisskráin spannaði allt frá árdögum óperuformsins með Monteverdi og til glænýrrar óperu um fótbolta! Spennandi, frjó og frumleg hátíð og mikil fagmennska í flutningi.“
Arna Schram, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, segir að starfsmenn Menningarhúsa séu stoltir og glaðir yfir tilnefningunum og óski stjórnendum hátíðanna innilega til hamingju. „Cycle og Óperudagar í Kópavogi hafa haft smitandi og jákvæð áhrif á menningarstarf í Kópavogi og stutt vel við það starf sem unnið er allan ársins hring í Menningarhúsum Kópavogs. Viðburðir sýndu það vel hve mörg tækifæri búa í nálægð ólíkra Menningarhúsa í Kópavogi.“