Frá vinstri: Victor Berg Guðmundsson, Jakob Sindri Þórsson, Anna Birna Snæbjörnsdóttir, Ásdís Kristjánsdóttir, Amanda K. Ólafsdóttir, Páll Melsted Ríkharðsson og Jón Sigfússon
Kópavogsbær hefur gert samning við alþjóðlegu samtökin Planet Youth um eflingu gagnadrifins forvarnarstarfs í þágu barna í sveitarfélaginu. Samningurinn er mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu þjónustu sem leggur áherslu á vellíðan, jöfn tækifæri og farsæld allra barna í Kópavogi.
Á undanförnum árum hefur Kópavogsbær þróað sérstakt Mælaborð barna sem safnar saman gögnum um lykilþætti í lífi barna, svo sem menntun, heilsu, félagslega þátttöku og öryggi. Þessi gögn eru nýtt til að forgangsraða aðgerðum og fjármagni á markvissan hátt með það að markmiði að tryggja farsæld barna í sveitarfélaginu.
Samstarfið við Planet Youth markar næsta áfanga í þeirri vegferð að nýta gagnagreiningu til að bæta lífsgæði barna og styðja við upplýstar ákvarðanir í þágu allra barna.
Kópavogur hefur verið í fararbroddi íslenskra sveitarfélaga í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hlaut viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag árið 2021 og endurnýjaða viðurkenningu árið 2024. Mælaborð barna er eitt af umbótaverkefnum sem hafa verið þróuð í tengslum við þessa vinnu og fær nú nýjan kraft með samningi við Planet Youth.
„Samningur Kópavogsbæjar við Planet Youth undirstrikar mikilvægi þess að byggja ákvarðanir á áreiðanlegum gögnum og býr sveitarfélaginu enn frekar í haginn til að tryggja börnum bestu mögulegu lífskjör – nú og til framtíðar,“ segir Amanda K. Ólafsdóttir, tengiliður Kópavogsbæjar við Planet Youth.