Kópavogur og heimsmarkmið SÞ

Í Kópavogi.
Í Kópavogi.

Mánudaginn 16. júlí mun Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs kynna í New York á hliðarviðburði í tengslum við ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna, hvernig Kópavogur notar Vísitölu félagslegra framfara til að fylgjast með framgangi á.ætlana um að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Samráðsfundurinn er haldinn í tengslum við árlegan pólitískan umræðuvettvang (High Level Political Forum, HLPF) Sameinuðu þjóðanna þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar heimsmarkmiðanna. 

Kópavogur er meðal frumkvöðla í heiminum til þess að nota Vísitölu félagslegra framfara (VFF) til að fylgjast með hvernig gengur að uppfylla heimsmarkmiðin. Vísitalan er nýleg aðferð til að mæla styrkleika samfélagslegra innviða. Mælikvarðinn er tekinn saman af Social Progress Imperative stofnuninni sem hefur aðsetur í Washington og London. 

Niðurstöður mælinganna er hægt að nota sem breitt frammistöðumat á framkvæmdum og þannig styrkja stýringu og skilvirkni við opinberrar fjárfestingar. Afraksturinn er aukinn velferð íbúa og betri nýting skattfés.

Á Facebooksíðu Kópavogs má sjá myndband um verkefnið.

Nálgun Kópavogs hefur vakið mikla athygli hjá Social Progress Imperative stofnuninni, en bærinn hefur látið smíða sérstakan hugbúnað sem byggir á þáttum vísitölunnar ásamt miklu magni af gögnum sem eru fyrirliggjandi um fjölbreyttan rekstur bæjarins og bætist við á hverjum degi. Þannig er að verða til lifandi mælaborð þar sem hægt að er fylgjast með af meiri nákvæmni en áður hvort ýmis verkefni og framkvæmdir skili sér í bættum hag íbúanna. 

Auk bæjarstjóra Kópavogs verða fyrirlesarar á fundinum meðal annars efnahags- og samfélagsmálaráðherra Paraguay, fastafulltrúi Kosta Ríka hjá Sameinuðu þjóðunum og framkvæmdastjóri Social Progress Imperative stofnunnar.

Hinn árlegi pólitíski umræðuvettvangur er haldinn af Endurskoðun á efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna (The Economic and Social Council – ECOSOC) sem ber meginábyrgð á að hvetja til og samræma innleiðingu heimsmarkmiðanna, bæði gagnvart aðildarríkjum og innan SÞ kerfisins.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós í íslenskri utanríkisstefnu. Skipuð var verkefnastjórn á fyrri hluta árs 2017 sem gegnir því hlutverki að halda utan um greiningu, innleiðingu og kynningu heimsmarkmiðanna. Í henni sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hagstofu Íslands. Verkefnastjórnin starfar undir forystu forsætisráðuneytis og varaformennsku utanríkisráðuneytis.