Kóraskóli er nýjasti skólinn í Kópavogi

Á myndinni eru frá vinstri: Efri röð: Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skólastjóri Hörðuvallaskóla, Nína Ý…
Á myndinni eru frá vinstri: Efri röð: Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skólastjóri Hörðuvallaskóla, Nína Ýr Nielsen fráfarandi skólastjóri Hörðuvallaskóla, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs.
Neðri röð: Ragnheiður Hermanssdóttir deildarstjóri grunnskóladeildar, Inga Fjóla Sigurðarsdóttir deildarstjóri og Arnór Heiðarsson verðandi skólastjóri Kóraskóla.

Kóraskóli er heiti á nýjum skóla fyrir 8. til 10.bekk í Kórahverfi í Kópavogi. Skólinn er til húsa i Vallakór og var áður unglingadeild Hörðuvallaskóla. Nemendur skólans komu með tillögur að nafni á nýja skólann og kusu svo á milli tveggja nafna sem skólaráð valdi úr innsendum tillögum nemenda.

Um 260 nemendur verða í nýjum skóla sem verður stofnaður formlega 1.ágúst og tekur til starfa undir nýju heitir þegar skólaárið 2023 til 2024 hefst.

Tekin var sú ákvörðun í vetur að skipta Hörðuvallaskóla í tvo skóla, annars vegar skóla fyrir 1. til 7. bekk og hins vegar unglingadeild fyrir 8.-10.bekk. Hörðuvallaskóli verður áfram í núverandi húsnæði að Baugakór

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs sótti skólann heim á dögunum og skoðaði húsakost skólans og hitti fyrir skólastjórnendur. Hluti Vallarkórs 12-14, sem einnig hýsir íþróttahúsið Kórinn, hefur undanfarin ár verið innréttaður fyrir skólastarf og í vetur var lokið við gera kennslustofur á neðri hæð hússins auk þess sem félagsmiðstöð , Kúlan, fékk nýja aðstöðu.