Kort sýna forgang bæjarins við snjóhreinsun og söndun

Í Kópavogi er unnið hörðum höndum að því að snjóhreinsa, salta eða sanda götur og göngustíga til að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar. Vegna fjölda fyrirspurna hefur verið ákveðið að setja kort á vefinn sem sýna forgangsröðun snjómoksturs, söltunar eða söndunar í bænum.

Fram kemur á kortunum að aðalleiðir eru í forgangi en síðan er farið í íbúðahverfi. Vinna hefst venjulega um kl. fjögur að morgni en yfirferð á bænum tekur um það bil átta klukkutíma.

Fólk er því beðið um að sýna biðlund en bærinn gerir eins vel og hann getur.

Hægt er að koma með poka eða ílát og fá salt endurgjaldslaust í áhaldahúsi Kópavogsbæjar að Álalind 1.

Kortin má sjá með því að smella á hlekkina hér að neðan.