Krakkaormar á menningartorfunni

Börnin fylgjast af áhuga með orminum langa.
Börnin fylgjast af áhuga með orminum langa.

Um fjögur þúsund leik- og grunnskólabörn í Kópavogi hafa undanfarnar vikur sótt heim menningarstofnanir Kópavogsbæjar á Borgarholtinu og fengið þar fræðslu um listir, menningu, náttúru og vísindi. Fræðslan fer fram undir heitinu Ormadagar og er styrkt af lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar.

Á Ormadögunum smíða krakkarnir m.a. hljóðfæri í Tónlistarsafni Íslands, úr ýmsum efnivið eins og álfpappír og blöðrum, þau kynnast Aravísum í Salnum, myndlistinni í Gerðarsafni og á Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs hlýða þau á erindi um orma og skoða pöddubækur.

Ormadagar hafa verið haldnir nokkrum sinnum undanfarin ár og njóta sívaxandi vinsælda meðal leik- og grunnskólabarna í Kópavogi. Reyndar hafa vinsældirnar borist úr fyrir bæjarmörkin og börn úr nágrannasveitarfélögunum hafa því einnig fengið að njóta Ormadaganna.

Til stendur að endurtaka leikinn næsta haust.