Lætur af störfum eftir 36 ára starf hjá bænum

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Jón Júlíusson.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Jón Júlíusson.

Jón Júlíusson hefur látið af störfum eftir 36 ára starf hjá Kópavogsbæ. Jón hóf störf árið 1988 sem íþróttafulltrúi, síðar deildarstjóri íþróttamála. Á starfsferli hans varð Kópavogur þekktur sem íþróttabærinn, mikil umbylting varð í íþróttamálum í Kópavogi ekki síst í barna- og unglingastarfi. Umgjörð íþróttastarfs tók stakkaskiptum og íþróttamannvirkjum fjölgaði.

Jón er í hópi þeirra starfsmanna sem hafa unnið hjá bænum á tímabili mikils vaxtar en þegar hann hóf störf voru íbúar um 15.500 að mestu í Austur- og Vesturbæ Kópavogs en þeir eru ríflega 40.000 í dag.

Jón var formaður Starfsmannafélags Kópavogs 1992-2004. Þá sat hann í bæjarstjórn fyrir hönd Samfylkingar 2006 til 2010 og skipulagsnefnd.

Jón er nú formaður GKG, Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Þess má geta að lokum að Jón hlaut heiðursviðurkenningu íþróttaráðs á Íþróttahátíð Kópavogs sem fram fór í janúar síðastliðnum.

Kópavogsbær þakkar Jóni fyrir frábær störf í þágu sveitarfélagsins og óskar honum velfarnaðar.