Lánshæfismat Kópavogs hækkar

Fannborg 2
Fannborg 2

Lánshæfismat Kópavogsbæjar hækkar um tvo flokka í mati Reitunar á lánshæfi bæjarins. Matið hækkar í i.A2 og úr i.BBB1. Þessi hækkun er tilkomin vegna minni áhættu sveitafélagsins, sterkari efnahags þess og jákvæðra horfa í efnahagsmálum.

„Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir íbúa Kópavogs og staðfesta það að fjárhagsáætlanir hér hafa verið ábyrgar og þeim hefur verið fylgt vel eftir. Sífellt betra lánshæfismat hefur skilað sér í betri vaxtakjörum, útgjöld bæjarins hafa því lækkað og bæjarbúar njóta góðs af því,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar.

Gangi áætlanir og væntingar sveitafélagsins eftir ætti lánshæfi Kópavogsbæjar að geta styrkst enn frekar segir í matinu.

Í greiningu segir meðal annars að gengisáhætta sé nú hverfandi eftir uppgreiðslu nánast allra gengisbundinna lána, að áætlanir sveitarfélagsins hafi gengið eftir og allt bendi til þess að það takist að ná settu markmiðum um skuldahlutfall á næstu árum. Þá muni jákvæðar horfur í efnahagsmálum koma sér vel fyrir sveitafélagið.

Hér er lánshæfismat Reitunar.