Lánshæfismat Kópavogsbæjar hækkar

Bæjarskrifstofur Kópavogs
Bæjarskrifstofur Kópavogs

Lánshæfismat Kópavogsbæjar hækkar um tvo flokka í mati Reitunar á lánshæfi bæjarins. Matið hækkar í i.AA2 úr i.A1. Hækkunin er tilkomin vegna áframhaldandi lækkunar skuldahlutfalls en lækkun viðmiðsins undir 150% var forsenda þess að einkunn bæjarins myndi hækka, skuldahlutfall bæjarins var 146% síðustu áramót. Rekstur sveitarfélagsins gengur vel og áætlanir ganga eftir. Efnahagur bæjarins heldur áfram að styrkjast og efnahagshorfur eru jákvæðar.

„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og niðurstaðan í samræmi við þá stefnu sem við höfum sett í rekstri sveitarfélagins,“ segir Ármann.

Nokkuð bjart er framundan í fjármálum sveitarfélagsins að öðru óbreyttu þar sem efnahagshorfur eru almennt nokkuð góðar, góð eftirspurn hefur verið eftir lóðum fyrir nýbyggingar og innviðir sveitarfélagsins eru traustir. Mikilvægt er hins vegar að haldið verði vel utan um kostnað og fjárfestingar og að áfram verði gætt aðhalds í rekstri segir í greiningu Reitunar.