Leikskólabörn lásu 244 bækur

Læsisátak á leikskólanum Núpi
Læsisátak á leikskólanum Núpi

Alls voru lesnar 244 bækur í lestrarátaki á leikskólanum Núpisem haldið var á vordögum. Tilgangur átaksins var að auka bóklestur heima sem og í leikskólanum enda sýna rannsóknir að gæðalestur með börnum stuðlar að auknum orðaforða, hlustunarskilningi og styður við framfarir í málþroska. Verkefnið sem var samvinnuverkefni foreldrafélagsins og leikskólans tókst með eindæmum vel.

Bókasafn Kópavogs lánaði leikskólanum bókakassa og úr þeim gátu börn og foreldrar sótt sér bækur og fengið lánað heim vandað og fjölbreytt  lesefni sem er mögulega nýtt og spennandi. Í leikskólanum voru útbúnar bókalestir og börn ásamt foreldrum bættu við lestina „vögnum“ sem á er skráð hvaða bók þau lásu heima með foreldrum og fá svo tækifæri til að segja hinum börnunum frá í samverustundum.

Þannig fengu þau möguleika á að æfa frásagnir sem eru ásamt upprifjun á lesnu efni mjög mikilvægur hlekkur í undirbúningi fyrir lestrarnám. Átakinu lauk svo á opnu húsi í leikskólanum  en þar fengu öll börnin í leikskólanum bókagjöf frá foreldrafélaginu. Verk barnanna voru einnig til sýnis ásamt kynningu á nýbreytni í skólastarfinu. Þátttakan var alveg frábær og má segja að ungir sem aldnir hafi skemmt sér konunglega.