Leikskólabörn safna fyrir vatnstanki í Úganda

Börn og starfsmenn Marbakka í söng í leik
Börn og starfsmenn Marbakka í söng í leik

Börn, foreldrar og starfsmenn leikskólans Marbakka í Kópavogi söfnuðu á síðustu vikum 55 þúsund krónum til bágstaddra með sölu á listaverkum barnanna. Upphæðin fer í fjármögnun byggingu vatnstanks í Úganda og hefur hún verið afhent Hjálparstofnun kirkjunnar. Stjórn foreldrafélags skólans hafði frumkvæði að söfnuninni en sambærileg söfnun hafði farið fram í sumar. Sú upphæð sem safnaðist þá fór í að fjármagna Ipada fyrir leikskólann. 

Hjálparstarf kirkjunnar styður HIV-verkefni í tveimur héruðum í Úganda, Rakaí- og Sembabule. Markmiðið er að bæta lífskjör HIV/alnæmissmitaðra, aðstandenda og eftirlifenda. Fátækt, vatnsleysi og þar með skortur á hreinlæti, vannæring, kraftleysi og umkomuleysi hrjáir hina verst settu.

Söfnunarfé leikskólabarnanna á Marbakka á því örugglega eftir að koma sér vel.