Leikskólabörn tóku þátt í gjörningi

Stúlkur frá Kópahvoli sem tóku þátt í gjörningnum Líf/Leaf.
Stúlkur frá Kópahvoli sem tóku þátt í gjörningnum Líf/Leaf.

Kópavogsdagar, menningarhátíð Kópavogsbæjar, hófust í dag. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri setti hátíðina sem hófst með gjörningi listakonunnar Eyglóar Benediktsdóttur. Gjörningurinn Líf/Leaf felst í því að hengja handmótuð postulínslauf á tré við Café Dix í Hamraborginni.

Leikskólabörn af Kópahvoli og Læk tóku þátt í gjörningnum með Eygló í dag.

Í verkinu fæst Eygló við æskuminningar sínar. Amma hennar líkti laufum við hringrás lífsins  en Eygló tók því bókstaflega. „En fólk deyr ekki bara á haustin er það nokkuð krakkar,“ spurði Eygló leikskólabörnin sem tóku þátt í gjörningnum með listakonunni sem gerir í verkinu tilraun til að bjarga lífum. Gjörningurinnn heldur áfram á laugardag.

„Það er vel við hæfi að fá leikskólabörn til liðs við okkur í gjörningi sem fjallar um minningar bernskunnar,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri við setningu hátíðarinnar.

Bæjarstjóri sagði ánægjulegt hversu margir taka þátt í Kópavogsdögum í ár. „Að þessu sinni var auglýst eftir þátttöku listamanna og niðurstaðan er öflugri hátíð en undanfarin ár. Þá er ókeypis inn á flesta viðburði þannig að allir eiga að geta notið Kópavogsdaga.“

Þetta er í ellefta sinn sem Kópavogsdagar eru haldnir en hátíðin stendur til sunnudagsins 11. maí.

Dagskrá Kópavogsdaga.