Leikskólar í Kópavogi í máli og myndum

19 myndbönd um leikskóla í Kópavogi eru aðgengileg á vef bæjarins.
19 myndbönd um leikskóla í Kópavogi eru aðgengileg á vef bæjarins.

Myndbönd sem kynna starf og áherslur allra leikskólanna í Kópavogi eru nú aðgengileg á vefsíðu Kópavogsbæjar. Í þeim segja leikskólastjórnendur og starfsmenn frá helstu áherslum og faglegri sýn í starfi skólanna.

 

Myndböndin verða nýtt til kynningar á því starfi sem fram fer í leikskólum Kópavogs, sérstöðu hvers og eins leikskóla, og náminu sem þar fer fram í gegnum leik barna.

 

„Myndböndin varpa ljósi á það frábæra starf sem er unnið innan skólanna. Þau munu vonandi nýtast foreldrum og öðrum til upplýsingar um skólana og veita innsýn í það frábæra starf sem fram fer í leikskólum og hvernig það auðgar líf barna og fjölskyldna þeirra,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs

 

Í Kópvogi hefur verið unnið markvisst að umbótum í leikskólum bæjarins undanfarin ár með það að sjónarmiði að styrkja starfsumhverfi skólanna og til að auka gæði starfsins fyrir börn og starfsmenn. Meðal þess sem lögð hefur verið áhersla á eru endurbætur á húsnæði og aðbúnaði, skemmtilegri skólalóðir, aukin tækifæri til menntunar starfsfólks, meira rými fyrir börn, hollur matur og stöðuga þróun í faglegu starfi.

 

Kópavogsbær rekur nítján leikskóla, þar sem 2000 mörg börn dvelja að jafnaði. Alls starfa um 700 starfsmenn í leikskólum bæjarins, en þar af eru um það bil 37% menntaðir leikskólakennarar.  

 

 „Við vonumst sannarlega til þess myndböndin styðji okkur í því að laða að enn frekar að gott fólk til starfa í leikskólum í Kópavogi. Starfsmenn í leikskólum vinna með börnunum okkar á mikilvægustu mótunarárum þeirra og það er því afar mikilvægt að hlúa vel að starfsumhverfi þeirra. Við vonumst jafnframt til þess að myndböndin hvetji fólk til að fara í nám í leikskólakennarafræðum, við þurfum öll sem samfélag að leggja áherslu á að fjölga leikskólakennurum,“ segir Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs í Kópavogi.

 

Smelltu hér til að skoða myndbönd úr leikskólum Kópavogs.