Leikskólinn Aðalþing tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Aðalþing í Kópavogi.
Aðalþing í Kópavogi.

Leikskólinn Aðalþing er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti.

Leikskólinn sem er rekinn af Sigöldu ehf. með þjónustusamning við Kópavogsbæ tók til starfa í mars 2009.

Skólinn er rekinn í anda hugmyndafræði Loris Malaguzzi, oftast kennd við bæinn Reggio Emilia á Ítalíu.  Áhersla er lögð á leikinn sem undirstöðu náms hjá börnunum, skapandi starf og á að umhverfi leikskólans styðji við náttúrulega rannsóknar- og sköpunarþörf barna. Hlutverk starfsfólks er að vera samverkamenn barnanna. Lykilorð í starfinu eru: Ígrundun – lýðræði – náttúra – upplýsingatækni.

Starfið á Aðalþingi hefur vakið athygli á landsvísu og út fyrir landsteinana, m.a. fyrir matarmenningu sína. Áhersla er lögð á að matur sé sem mest unninn  frá grunni í leikskólanum. Börnin borða í sérstakri matstofu í fallegu, heimilislegu umhverfi, börnin velja sér sjálf mat af hlaðborði og ráða hvar þau sitja.

Starf skólans hefur einkennst af miklum metnaði, starfþróun og umbótastarfi. Skólinn hefur frá upphafi stefnt að því að vera rannsóknarleikskóli í fararbroddi og þar hefur verið ráðist í fjölmörg þróunarverkefni.

Kópavogsbær óskar Aðalþingi innilega til hamingju með tilnefninguna.

Yfirlit yfir tilnefningar

Nánari umfjöllun um Aðalþing og rökstuðningur