Líkamsrækt í sundlaugum Kópavogs

Ágúst Ágústsson og Guðmundur Ágúst Pétursson frá Reebok fitness, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kó…
Ágúst Ágústsson og Guðmundur Ágúst Pétursson frá Reebok fitness, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar og Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs Kópavogs að lokinni undirskrift um rekstur líkamsræktarstöðva í sundlaum Kópavogs.

Kópavogsbær og Reebok Fitness undirrituðu í dag samning um rekstur líkamsræktarstöðva í sundlaugum Kópavogs, Salalaug og Sundlaug Kópavogs. Samningurinn er til fimm ára með möguleika á þriggja ára framlengingu.

Samningurinn gerir ráð fyrir að boðið verði upp á árskort fullorðinna fyrir 39.990 og eldri borgara og öryrkja fyrir 25.000 og gilda kortin í líkamsrækt og sund.

„Hagstæð líkamsrækt við sundlaugar í bænum er í anda þeirra markmiða sem við höfum sett okkur við gerð nýrrar lýðheilsustefnu. Það er ánægjulegt að vera búinn að undirrita þennan samning og tilhlökkun að sjá nýjar stöðvar í endurbættu húsnæði,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Stefnt er að opnun líkamsræktarstöðvanna í september. Sumarið verður notað til lagfæringar og undirbúnings á húsnæðinu fyrir nýja leigutaka og til þess að setja upp ný tæki í endurbættu húsnæði.