Listamenn í Kópavogi fá menningarstyrki

Það var hátíðleg stund í Gerðarsafni fyrr á árinu þegar listamennirnir tóku á móti menningarstyrkju…
Það var hátíðleg stund í Gerðarsafni fyrr á árinu þegar listamennirnir tóku á móti menningarstyrkjunum.

Kópavogsbær veitti í dag 25 einstaklingum, hópum og samtökum styrki úr lista- og menningarsjóði fyrir samtals tæplega tíu milljónir króna. Styrkirnir renna til margvíslegra verkefna sem ætlað er að auðga lista- og menningarlífið í bænum.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni, listasafni Kópavogs.

Hæsti styrkurinn nemur 1,5 milljónum króna og rennur hann til Björns Thoroddsen tónlistarmanns sem haldið hefur árlega Jazz- og blúshátíð í Salnum í Kópavogi. Einnig styrkir bærinn með veglegum hætti Tónlistarhátíð unga fólksins, sem haldin hefur verið í Kópavogi undanfarin sumur, og Töfrahurðina, sem er heiti á afar vinsælli tónlistarfræðslu fyrir leik- og grunnskólabörn í Kópavogi.

Af öðrum verkefnum má nefna danssmiðju fyrir börn og unglinga, hádegistónleika í Salnum, skrásetningu örnefna og kennimerkja í Kópavogi, ritun sögu hernámsáranna í Kópavogi, uppsetningu leiksýningar um fjölskyldu í Kópavogi, gerð kvikmyndar og tónleikana „Mozart við kertaljós“ í Kópavogskirkju.

Að auki fá einstakir listhópar rekstrarstyrki. Má þar nefna Kvennakór Kópavogs og Karlakór Kópavogs, Myndlistarfélag Kópavogs, Sögufélag Kópavogs og Ritlistarhóp Kópavogs.

Auglýst er eftir styrkjum einu sinni á ári en auk þess eru veittir svokallaðir skyndistyrkir vegna tilfallandi verkefna. Samtals voru hátt í fjörutíu styrkir veittir á síðasta ári. Tekjur lista- og menningarsjóðs eru 0,5% af 6,7% útsvarsstofni. Lista- og menningarráð fer með stjórn sjóðsins.