Listasmiðjur fyrir börn og unglinga

Í Gerðarsafni geta börn og unglingar úr Kópavogi fengið útrás fyrir listsköpun sína í listasmiðjum sem haldnar verða í lok nóvember og svo aftur í janúar. Listasmiðjurnar eru samstarfsverkefni safnsins og Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þær eru styrktar með veglegu fjárframlagi frá lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar. Smiðjurnar eru haldnar í tengslum við sýningu Gerðarsafns um Íslensku teiknibókina. Þátttaka í smiðjunni er börnum og unglingum að kostnaðarlausu en fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Íslenska teiknibókin er handrit sem inniheldur safn fyrirmynda sem gerðar voru af fjórum óþekktum listamönnum á tímabilinu 1350-1500. Teiknibókin er einstæð meðal handrita í safni Árna Magnússonar og ein af fáum fyrirmyndabókum sem hafa varðveist í Evrópu. Myndirnar í teiknibókinni eru fyrirmyndir sem listamenn á miðöldum nýttu sér, t.d. þegar þeir lýstu handrit eða máluðu altarismyndir, og bjóða þær því upp á allskyns áhugaverðan efnivið til að vinna með.

Listasmiðjurnar sem haldnar verða í tengslum við sýninguna eru eftirfarandi:

Laugardagurinn 30. nóvember kl. 13:00-16:00

SKRÍMSLI ÞÁ OG NÚ – FURÐUVERUR Í FORTÍÐ OG NÚTÍÐ (fyrir 13-16 ára). Skrímsli og furðuverur gömlu handritanna skoðaðar og settar í samhengi við samtímann. Kennari: Baldur Björnsson.

Laugardagurinn 11. janúar kl. 10:00-13:00

FYRIRMYNDASÖGUR (fyrir 8-12 ára). Þátttakendur gera myndasögu þar sem þeri notast við persónur, dýr og hluti sem koma fyrir í Íslensku teiknibókinni. Kennarar: Bjarni Hinriksson og Inga María Brynjarsdóttir.

Laugardagurinn 18. janúar kl. 13:00-16:00

UFSAGRÝLUR, DREKAR OG AÐRAR ÓVÆTTIR (fyrir 8-12 ára). Þátttakendur þróa sitt eigið skrímsli út frá gömul skrímslum Íslensku teiknibókarinnar.

Kennarar: Guðrún Vera Hjartardóttir og Kari Ósk Grétudóttir. 

Þátttaka í smiðjunum er ókeypis en fjöldi þátttakenda er takmarkaður og þarf að skrá sig í þær í s. 570-0440, eða á Gerðarsafni. Hámarksfjöldi er 18 þátttakendur í hverri smiðju.