Listræn verkefni líta dagsins ljós

Listræn verkefni
Listræn verkefni

Kennslumyndband um tölvuleiki, barnaföt úr gömlum efnum, tískublogg, ljóðagerð, lagasmíð og heimildarmyndagerð um Kópavog er meðal þess sem ungmenni í Skapandi sumarstörfum hafa unnið að í sumar. Uppskeruhátíð Skapandi sumarstarfa fór fram í Molanum í  gær og þá gafst gestum og gangandi kostur á því að kynna sér öll hin fjölbreyttu verkefni. Alls 25 ungmenni tóku þátt í starfinu.

Verkefnin eru afar metnaðarfull og sumir eru að reyna að koma þeim í framkvæmd og hafa komist í samstarf við fyrirtæki. Má sem dæmi nefna að tískubloggararnir Magga, Marta og Anna Maggý hafa komist í samstarf við KIOSK hönnuðina og taka ljósmyndir af fyrirsætum í fötunum þeirra.

Markmiðið með Skapandi sumarstörfum er að gefa ungmennum úr Kópavogi færi á að vinna að listsköpun sinni og fá þau laun fyrir það í nokkrar vikur yfir sumartímann. 

Starfsfólk Molans, ungmennahúss Kópavogs, heldur utan um starfsemi Skapandi sumarstarfa og hafa ungmennin aðsetur þar.

Á meðfylgjandi mynd eru ljóð eftir ungskáldin, Birni og Sóley.