Ljóðstafur Jóns úr Vör 2021

Jón úr Vör,
Jón úr Vör,

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar efnir til samkeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör. Öllum skáldum er velkomið að taka þátt en ljóðið má ekki hafa birst áður. Skilafrestur í keppnina er til og með 4. desember 2020 – póststimpill til og með 4. desember gildir.

Ljóðstafurinn verður afhentur fimmtudaginn 21. janúar 2021 við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Þetta er í 20. skipti sem efnt er til ljóðasamkeppni Jóns úr Vör.

Ljóði skal skilað í fjórum eintökum og skal hvert eintak merkt dulnefni. Með fjórritinu skal fylgja eitt lokað umslag merkt dulnefni skáldsins – umslagið skal innihalda upplýsingar um nafn, símanúmer og netfang skáldsins. Einungis umslög sem tilheyra vinnings- og viðurkenningarljóðum verða opnuð en öllum öðrum gögnum verður eytt.

Utanáskriftin er Ljóðstafur Jóns úr Vör / Menningarhúsin í Kópavogi / Digranesvegi 1 / 200 Kópavogi. Nánari upplýsingar: menningarhusin@kopavogur.is

Samhliða Ljóðstaf Jóns úr Vör fer fram ljóðasamkeppni á meðal grunnskólanemenda í Kópavogi og verða viðurkenningar veittar 21. janúar 2021. Fyrst var efnt til ljóðasamkeppni á meðal grunnskólanema árið 2012.

Jón úr Vör

Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000.