Loftgæði metin góð fyrir Vinnuskólann þriðjudag 22. júlí

Vinnuskólinn í Kópavogi er í fullri virkni í dag, þriðjudag 22. júlí, og öll starfsemi fer fram samkvæmt áætlun. Loftgæði eru metin góð og því ekkert sem hamlar útivinnu eða annarri dagskrá dagsins.

 

Vinnuskóli Kópavogs fylgist áfram náið með loftgæðum og er í samstarfi við aðra vinnuskóla á höfuðborgarsvæðinu, komi til þess að loftgæði versni. Með því er tryggt að viðbrögð verði samræmd og í samræmi við leiðbeiningar almannavarna hverju sinni.

 

Vegna slæmra loftgæða í gær, mánudag 21. júlí, felldi Vinnuskóli Kópavogs niður alla starfsemi. Ungmenni sem starfa hjá Vinnuskólanum fá greitt fyrir daginn og hafa foreldrar jafnframt verið upplýstir.

 

Upplýsingar frá Veðurstofu Íslands mánudag 21. júlí voru eftirfarandi:

Áframhaldandi hækkun mælist á brennisteinsdíoxíði (SO2) vegna eldgossins á höfuðborgarsvæðinu og Akranesi og er nú óholl öllum, ekki bara viðkvæmum. Samkvæmt viðbrögðum við loftmengun frá eldgosum á vef umhverfis og orkustofnunnar er talað um vinnuverndarmörk. Fari styrkur SO2 yfir mengunarmörkin 2.600 µg/m3 að meðaltali á 15 mín tímabili skal vinnu hætt eða starfsmenn noti viðeigandi gasgrímu og beri gasmæli. Styrkur SO2 í Hafnarfirði hefur nú þegar farið yfir 2600 µg/m3 að meðaltali á 15 mín tímabili. Búist er við því að styrkur SO2 fari hækkandi á höfuðborgarsvæðinu. Viðbrögð við núverandi mengun eru því eftirfarandi : Börn eigi ekki að vera úti við nema til að komast til og frá skóla, ásamt því að fólk skuli forðast áreynslu utandyra og slökkva á loftræstingu.