Lokahátíð Skapandi sumarstarfa

Skapandi sumarstörf í Kópavogi.
Skapandi sumarstörf í Kópavogi.

Skapandi sumarstörf í Kópavogi efna til lista- og uppskeruhátíðar í Molanum og Gerðarsafni fimmtudaginn 26. júlí 2018. Dagskráin er frá kl. 17-20.

Starfið veitir ungu listafólki á aldrinum 18-25 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins. Í sumar voru starfrækt 18 spennandi og ólík verkefni, og stóðu að baki þeim 28 listamenn úr mismunandi miðlum; myndlist, tónlist, ljóðlist, gjörningar, stuttmyndir, innsetningar og umhverfið sjálft, voru rannsóknarefni listafólksins.

Á lokahátíðinni munu listamennirnir deila afrakstri sumarsins fyrir gesti og gangandi, áhugasama og forvitna sem langar að kynna sér það athyglisverðasta í íslensku grasrótinni. Þetta er í raun einstakur viðburður í miðbæ Kópavogs.  

Verið velkomin á þessa kraumandi hátíð, við tökum vel á móti ykkur í Molanum, að Hábraut 2 í Kópavogi.

Frá árinu 2005 hafa fjölmörg ungmenni starfað við listsköpun að sumarlagi í Kópavogi undir hatti Skapandi sumarstarfa.  Hægt er að fylgjast með verkefnunum á Facebooksíðu Skapandi sumarstarfa.