Lúxusskrímsli í Fossvogsdal

Lúxusskrímslið mun standa í tjörninni í Fossvogsdal fram í september.
Lúxusskrímslið mun standa í tjörninni í Fossvogsdal fram í september.

Lúxusskrímsli hefur verið komið fyrir í Fossvogsdal. Lúxusskrímslið sem um ræðir er mannhæðarhár skúlptúr sem listamennirnir Helgi Grímur Hermannsson og Jökull Smári Jakobsson unnu að í Skapandi Sumarstörfum Kópavogsbæjar nú í sumar.

Skúlptúrinn var afhjúpaður við formlega vígslu fimmtudaginn 30.júlí. Anna Þóra Björnsdóttir, uppistandari og eigandi verslunarinnar Sjáðu, hélt uppi stemningu og skálaði fyrir listamönnunum og lúxusskrímslinu. 

Lista- og menningarráð Kópavogs styrkti verkefnið og veitti leyfi fyrir staðsetningu skúlptúrsins fram í september.

Listamennirnir hafa verið hugfangnir af lúxusskrímslinu síðan þeir fengu hugmyndina í byrjun sumars. Á lokahófi Skapandi Sumarstarfa kynntu þeir skúlptúrinn fyrir almenningi og hvöttu bæjarbúa til þess að gera sér ferð í Fossvogsdal.

“Tjörnin verður svona heimsóknarstaður þar sem hægt er að heimsækja skrímslið, upplifa lúxus með því, hlusta á slökunartónlist og hugleiða eða hvað sem manni þykir vera lúxus“ segja strákarnir um lúxusskrímslið.

Lúxusskrímslið er afar vinalegt að sjá og alls ekki sú gerð af skrímsli sem fólk og börn ætti að hræðast.