Mælaborð barna fær alþjóðleg verðlaun UNICEF

Hjördís Eva Þórðardóttir, UNICEF Íslandi, Páll Magnússon bæjarritari Kópavogs, Anna Elísabet Ólafsd…
Hjördís Eva Þórðardóttir, UNICEF Íslandi, Páll Magnússon bæjarritari Kópavogs, Anna Elísabet Ólafsdóttir verkefnastjóri innleiðingar Barnasáttmála SÞ í Kópavogi, Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs með viðurkenningu UNICEF á mælaborði barna.

Mælaborð sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna á Íslandi vann í dag alþjóðleg verðlaun UNICEF (Child Friendly Cities Initiative Inspire Awards) fyrir framúrskarandi lausnir og nýsköpun í nærumhverfi barna. Mælaborðið er þróað af Kópavogsbæ í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi.

Verðlaunin voru afhent á stórri ráðstefnu UNICEF um innleiðingu barnasáttmálans í sveitarfélögum sem haldin er í Köln í Þýskalandi. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs tók við verðlaununum ásamt fulltrúum Kópavogsbæjar Ásmundi Einari Daðasyni félagas- og barnamálaráðherra.

„Mælaborð barna er verkefni sem við erum gríðarlega stolt af hjá Kópavogsbæ og mjög ánægjulegt að það hljóti alþjóðlega viðurkenningu UNICEF. Kópavogsbær hefur lagt áherslu á málefni barna og barnaverndar og vinnur nú að innleiðingu Barnasáttmála SÞ hjá bænum. Mælaborðið er hluti af þeirri innleiðingu og frábært að fá verðlaun sem öðrum þræði eru viðurkenning á metnaðarfullri innleiðingu hans. Markmiðið með mælaborðinu er að við getum forgangsraðað enn betur í þágu barna og vonandi mun það nýtast sem víðast, innanlands sem utan,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Samstarfssamningur um mælaborðið var undirritaður í júní síðastliðinn og er hluti af heildarendurskoðun á þjónustu við börn og ungmenni sem stjórnvöld standa fyrir.

Stýringu aðgerða í þágu barna og betri nýting fjármuna

Mælaborðinu er ætlað að safna tölfræðigögnum og greina þau og er tilgangurinn að fá fram betri mynd af almennri stöðu barna í samfélaginu hverju sinni og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða. Fyrstu drög að mælaborðinu voru kynnt á ráðstefnunni Breytingar í þágu barna sem haldin var á vegum félags- og barnamálaráðherra 2. október síðastliðinn. Þar kom skýrt fram að með mælaborði megi tryggja rétta stýringu aðgerða í þágu barna og þar með betri nýtingu fjármuna. Vonir standa til þess að í náinni framtíð muni það geta nýst hverju og einu sveitarfélagi og þar með landinu öllu.

 „Gefur byr í seglin“

„Ég hef haft sterka sannfæringu fyrir því að með breyttum vinnubrögðum og aukinni samvinnu getum við náð fram byltingu þegar kemur að málefnum barna á Íslandi. Það er mjög ánægjulegt að eitt af þeim samvinnuverkefnum sem lögð hefur verið áhersla á í þessari vegferð sé að fá stóra alþjóðlega viðurkenningu. Það gefur okkur byr í seglin og sýnir að við erum á réttri leið,” segir Ásmundur Einar.