Málefnasamningur 2010

Málefnasamningur um meirihlutasamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Y-Lista Kópavogsbúa hefur nú verið samþykktur. Í honum er tekið fram að hann sé grundvallaður á stefnuskrám flokkanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2010 en hann taki jafnframt mið af því að hann sé gerður á miðju kjörtímabili.

Í málefnasamningnum segir m.a. að áhersla verði lögð á niðurgreiðslu skulda og enn fremur að fasteignagjöld á íbúðir og önnur gjöld verði endurskoðuð með lækkun í huga.

Í  honum er einnig kveðið á um að vinnu við nýtt aðalskipulag verði lokið fyrir árið 2013 og að breyta skuli skipulagi á Glaðheimareitnum. Söluferli þar hefjist sem fyrst á hluta eða öllu svæðinu. Þá skuli ljúka skipulagi á Kópavogstúni og hefja sölu á lóðum þar.

Í skólamálum er stefnt að því að nýr leikskóli í Vatnsenda/Rjúpnahæð verði tekinn í notkun árið 2013 og í málefnum aldraðra er stefnt að því að hefja byggingu nýrra hjúkrunarrýma í Boðaþingi á árunum 2012 og 2013. Sömuleiðis verði leitað leiða til að hraða endurbótum á Sunnuhlíð til að fjölga hjúkrunarrýmum.

Að lokum má nefna að gera á úttekt á stjórnsýslu og fjármálum sveitarfélagsins.

Málefnasamningur Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Y-Lista Kópavogsbúa.