Mannauðsstjóri Kópavogsbæjar

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir.
Sigríður Þrúður Stefánsdóttir.

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri Kópavogsbæjar.

Sigríður Þrúður hefur víðtæka stjórnunar- og sérfræðireynslu. Hún kemur til starfa hjá Kópavogsbæ frá Reykjavíkurborg þar sem hún starfar sem skrifstofustjóri á Mannauðs- og starfsumhverfissviði og stýrir starfsþróunar- og starfsumhverfismálum. Einnig hún hefur starfað sem mannauðstjóri hjá Marel og sem sérfræðingur og ráðgjafi á sviði mannauðsmála fyrir fjölmörg fyrirtæki og stofnanir. Sigríður Þrúður hefur þar að auki starfað sem skólastjórnandi, verkefnastjóri, framhaldsskólakennari og leiðbeinandi á háskólastigi á sviði mannauðsstjórnunar, fræðslu- og starfsþróunar, stefnumótunar, markaðsmála og stjórnendaþjálfunar. Hún er einnig stjórnendaþjálfari hjá Franklin Covey stjórnendaráðgjöf.

Sigríður er með meistarapróf á sviði mannauðsstjórnunar, stjórnunar og stefnumótunar en lauk BA Honours námi í ferðamálafræði. Hún er með kennsluréttindi og Diploma í markþjálfun. Hún er einnig með vottun frá Franklin Covey, stjórnendaráðgjöf sem þjálfari.

Sigríður Þrúður var valin úr hópi tæplega 60 umsækjenda. Mannauðsstjóri mun veita mannauðsdeild forystu en það er ný deild hjá Kópavogsbæ.