Markmið XV í Gerðarsafni

Sýningin Markmið opnar í Gerðarsafni 11. október.
Sýningin Markmið opnar í Gerðarsafni 11. október.
Laugardaginn 11. október opna listamennirnir Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Pétur Örn Friðriksson sýningu sem ber heitið Markmið XV í Gerðarsafni kl. 15:00. Markmið er samstarfsverkefni þeirra Helga og Péturs og samanstendur af fjölbreyttum verkefnum sem unnin eru til sýningar, skrásett til birtingar á sjónrænan hátt og með öðrum heimildum. Sýningin stendur til 9. nóvember.

Markmið er það sem það er hverju sinni; spunaverkefni. Hver sýning er brú milli síðustu sýningar og þeirrar næstu.

Upphafið af verkefninu Markmið hófst um síðustu aldamót með sýningu í gallerí@hlemmur.is árið 2000. Þeir hafa þróað verkefnið frá þeim tíma og nota eldri hluti og senur frá fyrri sýningum þannig allt tengist en án þess að vera reglulegt. Sýningin sem nú opnar í Gerðarsafni er sú fimmtánda í röðinni.

Á fyrri sýningum Markmiðs hafa þeir smíðað ýmis furðutæki, farskjóta fyrir óhugsandi aðstæður og tæki og tól. Framkvæmt flugdrekaflug, framleitt og útvegað ferða og björgunarbúnað, hannað og smíðað báta og fenjadreka, farið í kappakstur og eftirför á Volvo, jeppaferðalög, skotkeppni með fjarstýrðu skotmarki og skreyttum markmyndum, gert athuganir með fyrirbærið orfplanki, kappsiglingar með fjarstýrðum bátum, hönnun og smíði eggvopna og skotvopna og stóls útbúnum með miðunarbúnaði fyrir eftirlitsmyndavél, sviðsett innbrot og vopnasöfnun, tekið landslagsljósmyndir með hjálp eldflauga, flugdreka og sérútbúnum gjörðum sem renna niður fjallshlíðar.

Sýningin stendur til 9. nóvember. Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 11-17. Aðgangur 500 kr. Ókeypis inn á miðvikudögum.