Matjurtagarðar í Kópavogi

Ríkuleg uppskera í matjurtagarði í Kópavogi.
Ríkuleg uppskera í matjurtagarði í Kópavogi.

Kópavogsbúum stendur til boða að leigja matjurtagarða af Kópavogsbæ. Löng hefð er fyrir leigu á slíkum garðlöndum og fjöldi bæjarbúa sem hefur nýtt sér þennan möguleika. Þá býður bærinn börnum á aldrinum sjö til þrettán ára að taka þátt í skólagörðum bæjarins.

Íbúar Kópavogs eru hvattir til að nota tækifærið og rækta matjurtir í sumar, prýðisgóðar aðstæður eru til garðyrkju í Kópavogi og matjurtarækt hagkvæmur kostur fyrir íbúa á öllum aldri.

Opnað verður fyrir umsókn í skólagarða á sumardaginn fyrsta en hægt er að sækja um garðlönd nú þegar. Hvert garðland er 25 m2 að stærð og leigugjald er 4.900 kr. Hver leigjandi getur verið með tvo skika, þ.e. 50 m2, en skilyrði fyrir úthlutun er að eiga lögheimili í Kópavogi. Sótt er um í íbúagátt Kópavogsbæjar.

Garðlönd

Garðlönd eru í boði á eftirfarandi stöðum: í trjásafninu neðan við Kjarrhólma í austanverðum Fossvogsdal, við Kópavogstún (neðan Sunnuhlíðar), við Núpalind (ofan við leikskólann Núp), við Víðigrund (neðan við skólagarða),við Arnarnesveg á mörkum Sala- og Kórahverfis og við Guðmundarlund, en þar er hægt að rækta fjölærar matjurtir, svosem rabarbara, þar sem garðarnir eru ekki plægðir árlega

Garðlöndin verða afhent plægð og merkt um miðjan maí, ef veður leyfir, og eins og áður verður á staðnum komið fyrir skiltum sem sýna legu garða og lista yfir leigjendur. Á öllum stöðunum er aðgangur að vatni. Verkfæri, s.s. skóflur, gaffla, hrífur, vatnskönnur og hjólbörur, verða á staðnum fyrstu vikurnar, þó ekki sé hægt að tryggja að alltaf verði nóg fyrir alla.

Nánari upplýsingar.

Þess má geta að á næstunni verður haldinn fræðslufundur um grænmetisrækt í Kópavogi og verður hann auglýstur nánar síðar. Fundurinn er liður í samstarfi Kópavogsbæjar við Garðyrkjufélag Íslands.